Video: Grindavík í góðri stöðu
Grindavíkurkonur sigruðu Íslandsmeistara Keflavíkur í gær 77 – 70 í lokaumferð Iceland Express deildarinnar í kvennakörfuknattleik. Jafnt var á með liðunum allan leikinn en Grindvíkingar höfðu jafnan frumkvæðið, Keflvíkingar komust á köflum nokkuð nálægt því að jafna metin en Grindavík
reyndist sterkari á endasprettinum.
Einhver taugatitringur var í báðum liðum og var lítið skorað í 1. leikhluta sem lauk í stöðunni 14 – 9 Grindavík í vil. Annar leikhluti var mun skárri á báða bóga en Grindavík leiddi í hálfleik 34 – 30.
Hið sama var uppi á teningnum í síðari hálfleik, þ.e. Grindavík hafði forystuna og Keflavík aldrei langt undan. Að loknum 3. leikhluta var staðan 52 – 51 Grindavík í vil. Í lokaleikhlutanum hélt Grindavík sínu og uppskar sanngjarnan sigur eftir spennandi lokamínútur.
Tamara Stocks var stigahæst hjá Grindavík með 29 stig og 17 fráköst, þá varði hún einnig þrjú skot í leiknum. Henni næst var Hildur Sigurðardóttir með 25 stig og 13 fráköst en hún tapaði einnig 13 boltum. Hjá Keflavík gerði La Barkus 23 stig og stal 10 boltum. Birna Valgarðsdóttir, sem var í villuvandræðum lungann úr leiknum í gær, gerði 13 stig og tók 7 fráköst.
Tölfræði leiksins
Sjá myndbrot úr leiknum
Skoða myndasafn úr leiknum
VF – myndir/ JBÓ, [email protected]