Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Íþróttir

Video: Allir jafnir undir stálinu
Stefán á ýmsa frasa sem hann notar reglulega og vekja kátínu hjá lyftingarfélögum í Massa. Þeirra á meðal eru: Það eru allir jafnir undir stálinu - Stálið gerir engan mannamun - Stálið lýgur ekki - Þú svíkur ekki stálið - Beygðu eða deyðu - Hvað er að þeg
Sunnudagur 12. mars 2017 kl. 06:00

Video: Allir jafnir undir stálinu

Þríburapabbinn Stefán Sturla varð íþróttamaður UMFN fimmtugur - Sambýlismaður Jóns Páls

Stefán Sturla Svavarsson hefur stundað kraftlyftingar í 40 ár. Hann ól manninn í hinu goðsagnakennda Jakabóli þar sem margir sterkustu menn heimsins voru að æfa á áttunda og níunda áratug síðustu aldar. Þangað mætti hann 17 ára 60 kílóa tittur beint úr frjálsum íþróttum. Honum og Jóni Páli Sigmarssyni varð vel til vina og bjuggu þeir saman um tíma. Stefán tjáði sig opinskátt á um steranotkun sína árið 1984, þar sem hann var hætt kominn vegna ofneyslu. Hefur hann síðan talað fyrir auknum forvörnum varðandi lyfjanotkun. Stefán var fimmtugur kjörinn íþróttamaður UMFN og var þá að toppa. Hann ætlar sér að lyfta þangað til yfir lýkur enda þykir honum fátt skemmtilegra. Stefán er augljóslega mikill íþróttagarpur enda hefur hann afrekað það að verða Íslandsmeistari í eldri flokki í kraftlyftingum, á skíðum og í frjálsum.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Stefán er reyndar fæddur og uppalinn í Sundahverfinu í Reykjavík en hann fluttist til Reykjanesbæjar fyrir rúmum áratug. Hann er lærður sjúkraliði en starfar sem tollari á Keflavíkurflugvelli. Þegar hann er ekki við vinnu eða að taka á stálinu þá er hann afi og þríburapabbi í fullu starfi. Þríburarnir eru reyndar orðnir hálf fullorðnir og því er afastarfið fyrirferðameira hjá Stefáni.

Fyrsta sambúðin var með Jóni Páli

„Ég hef örugglega verið bullandi ofvirkur. Ég var víst mjög baldinn sem krakki,“ rifjar Stefán upp en hann var afar orkumikill. Hann var þó aldrei í íþróttum fyrr en hann fór að æfa frjálsar íþróttir 16 ára gamall. Hann þótti efnilegur í frjálsum en áhuginn á lyftingum jókst smá saman þangað til hann rataði inn í hið fornfræga Jakaból, þá varð ekki aftur snúið.

Honum var vel tekið af jötnum Jakabóls og innan skamms varð hann heltekinn af lyftingum og hætti í frjálsum. Allir sem lyftu í Jakabóli fengu viðurnefni og þar var Stefán engin undantekning. Honum var úthlutað nafninu Spjóti þar sem hann hafði verið að kasta spjótinu í frjálsum. Nafnið fylgir honum enn í dag. „Þarna voru hrikalegir lyftingamenn og margir sterkustu menn landsins. Þar kynnist ég Jóni Páli og við fórum að æfa saman, borða saman og seinna meir að búa saman.“
Stefáni og Jóni Páli Sigmarssyni varð vel til vina á þessum tíma en þarna voru þeir ungir og einhleypir menn sem lifðu fyrir lyftingarnar. Svo fór að Stefán og Jón urðu sambýlingar í húsi móður Stefáns í Efstasundi í Reykjavík, þar sem hún leigði vanalega út herbergi. Stefán á góðar minningar frá þeim tíma er þeir Jón bjuggu saman en þeir gerðu mest af því að æfa og borða.

„Það var ekki óvanalegt að við elduðum þrjú lambalæri og tvo hryggi í sömu vikunni. Eggjabakkar hurfu ofan í okkur en við drukkum á bilinu 5 til 8 lítra af mjólk á dag,“ rifjar Stefán upp. Hann minnist Jóns sem mögnuðum karakter sem gaman var að vera í kringum.
„Það var í eldhúsinu hjá okkur þar sem Jón Páll segir við mig, „Spjóti ég ætla að verða sterkastur í heimi.“ Úr varð að Jón Páll varð sterkastur. Stefán sjálfur stefndi ekki svona hátt. „Ég hafði bara svo rosalega gaman af því að lyfta. Félagsskapurinn var líka stór hluti af þessu. Það er bara eins og ættarmót þegar maður hittir þessa gömlu æfingafélaga. Það er alveg yndislegt og við hlæjum og flissum yfir gömlum sögum.“

Toppaði um fimmtugt

Stefán er enn að taka á því og hefur sjaldan verið sterkari. „Ég er svaðalega öflugur, ég hreinlega skil það ekki,“ segir Stefán léttur í bragði. Hann setti sér markmið að ná 700 kg í samanlögðu (bekkpressa, hnébeygja og réttstöðulyfta) fyrir fimmtugt. „Ég gerði það fimmtugur og ég gerði það lyfjalaus og með nánast engum fæðubótarefnum. Mér fannst það ákveðinn sigur fyrir mig.“

Stefán fluttist til Reykjanesbæjar fyrir um áratug síðan. Hann fann sér fljótlega athvarf í Massa í íþróttamiðstöð Njarðvíkur. „Hér er einhver gamall andi sem ég fíla í botn. Hér eru mjög góðar græjur og mér var afar vel tekið hérna frá fyrsta degi. Hér var mikið af ungu fólki sem gerði mig yngri í anda. Massi er algjör paradís á jörðu hvað mig varðar. Ég fann mig strax rosalega vel þar.“

Stefán, sem er 56 ára, sér ekki fram á að hætta að lyfta enda eltist hann enn við met sem hann vill bæta. „Ég vona að ég hætti aldrei að lyfta. Vonandi að guð og lukkan sjái til þess að svo verði. Ég hef ákveðin markmið. Ég ætla að keppa þegar ég er sextugur og bæta mig í beygjunum. Ég á Íslandsmetið í öldungaflokki en stefni á að bæta það, 255 kg, það er ekki neitt. Menn eru að keppa í kraftlyftingum fram í rauðan dauðann.“

Kynntust á Kleppi

Þeir félagar Stefán og Jón Páll fóru að vinna á Kleppi en Jón fór fljótlega að vinna sem dyravörður á Borginni en hann var fluttur frá Stefáni og kominn með konu. Stefán hætti fljótlega að sinna lyftingunum af sama kappi. Næga aukavinnu var að hafa á Kleppi og hann vann myrkranna á milli til þess að safna sér peningum. Þeir höfðu að mestu farið í mat áður en nú safnaði hann sér fyrir glæsilegum Ford Econoline húsbíl sem smíðaður var í Keflavík. Hann fékk fljótlega augastað á stúlku sem var læknaritari á Kleppi. „Við Inga kynnumst í ágúst ´84 og urðum vinir. Ég bauð henni svo í útilegu á húsbílnum hvítasunnuna ´85, þá byrjum við eiginlega saman.“ Tveimur árum síðar voru þau gift. Inga Ingólfsdóttir er uppalin á Hellissandi og er hjúkrunarfræðingur. Stefán segir það lukkuna í lífi sínu að hafa náð í hana. Hann kallar Ingu yfirleitt súperhjúkkuna frá Sandi. Vinir Stefáns á Facebook hafa fengið að kynnast því en þar er Stefán vanur að slá á létta strengi. Þríburar þeirra hjóna, þau Sindri, Sara og Ólöf komu í heiminn árið 1994 en fyrir áttu þau sex ára soninn Svavar. Stefán segir heimilislífið oft hafa verið ansi fjörugt og lítill tími gafst til þess að sinna lyftingum þegar börnin voru ung.

Mátti ekki bregða sér í Bónus án þess að bjarga mannslífi

Um það leyti sem þríburarnir voru að fæðast þá þurfti Stefán oft að bregða sér í Bónus til þess að undirbúa komu þeirra. Þar vann hann mikla hetjudáð í tvígang sem fjallað var um í fjölmiðlum. Eitt sinn átti hann leið í Bónus til þess að versla örbylgjuofn. „Ég er þarna að ræða við kunningja minn og segi honum að ég eigi brátt von á þríburum. Hann bara blánaði upp og féll bara eins og spýta í jörðina. Ég hugsaði bara um að koma honum til hjálpar og blés í hann lífi. Hann hringdi síðar í mig og tjáði mér að hann hefði verið með leyndan hjartasjúkdóm. Mánuði síðar er ég að fara aftur í Bónus til þess að kaupa pela. Þegar ég er að fara út þá liggur maður í dyragættinni nær dauða en lífi. Ég hóf að hnoða hann og blása í hann lífi og tókst það. Þetta var eldri maður sem var hjartasjúklingur en hann lifði nokkur góð ár til viðbótar. Jóhannes í Bónus boðaði mig á fund eftir þetta allt saman en hann vissi að ég ætti von á þríburum. Hann spurðu hvort mig vantaði ekki eitthvað fyrir börnin, það hélt ég nú enda vantaði mig bleyjur. Jóhannes sagði mér að taka bleyjur að vild, sem ég og gerði enda mikil notkun á heimilinu,“ segir Stefán og hlær.

Stefán kann afar vel við sig í Innri-Njarðvík þar sem fjölskyldan kom sér fyrir. Svo vel að Stefán gengur nú yfirleitt undir nafninu Afi Spjóti í Dalnum. „Mér var rosalega vel tekið í vinnunni hér og það var alveg frábært að flytja hingað,“ en þau hjónin fengu bæði vinnu á sínum vettvangi og hefur vegnað vel í Reykjanesbæ.


Talaði opinskátt um steranotkun

Stefán vakti landsathygli á sínum tíma þegar hann talaði opinskátt um lyfjanotkun sína.
„Ég misnotaði anabólíska stera þegar ég var ungur maður. Ég sagði mína sögu í Helgarpóstinum á sínum tíma. Ég hef ekki séð álíka umfjöllun þar sem talað er opinskátt um steraneyslu. Ég var ungur og vitlaus og át þetta eins og brjóstsykur. Það endaði þannig að ég var lagður inn á spítala með annað nýrað óstarfhæft. Ég er í raun heppinn að vera bara hérna megin.“ Stefán er á því að steranotkun sé meiri og verri í dag en í þá daga. Hann verður mikið var við notkun lyfja í lyftingum en hann segir mikinn skort vera á forvörnum frá yfirvöldum þegar kemur að steranotkun. „Þetta er feimnismál og það vantar alla umræðu,“ segir Stefán.

Stefán Sturla