„Við vorum mjög þéttir“
Willum Þór Þórsson þjálfari Keflvíkinga var að vonum sáttur með 2-1 sigur liðsins gegn Selfossi nú í kvöld.
„Við sköpuðum fullt af færum, héldum boltanum vel inná miðjunni og góð hreyfing á mönnum frammi án þess að spila sjálfa okkur úr skipulagi og þá er náttúrulega mjög góður bragur á liðinu, það er það sem ég var mjög sáttur við í dag. Við vorum mjög þéttir, það er það sem hefur einkennt okkar leik og á meðan við höldum okkur á jörðinni og erum þéttir og náum meira jafnvægi fram á við að þá eflumst við bara.“ sagði Willum í leikslok en hann segir að það sé góð tilfinning að sitja á toppi deildarinnar.
„Það er góð tilfinning að sitja á toppnum, það er það sem við lögðum upp með í upphafi, að blanda okkur í topp baráttuna. Á meðan við einblínum á það að berjast og slást um stigin í hverjum einasta leik að þá erum við þarna við toppinn.“
Um markmannsmál liðsins hafði hann þetta að segja: „við erum með tvo efnilega markverði sem eru ungir og við tókum ákvörðun í upphafi móts út frá fjárhagslegum forsendum en fyrst og fremst faglegum um að fá ekki annan markvörð til liðsins. Þetta eru mjög efnilegir markverðir, Árni spilaði í vetur og er tilbúinn og hann sýndi það bæði í KR leiknum og í dag. En við erum með varamarkvörð sem er enn í þriðja flokki og er fæddur 1994. Hann spilaði með 3. og 2. flokki í vikunni og ég myndi aldrei leyfa leikmanni í meistaraflokki að spila með 3. flokks liði í sömu vikunni og hann spilar með meistaraflokk þannig að við vorum svolítið hræddir um álagið á honum.“
Að lokum sagði Willum að hann væri ósáttur með reglur KSÍ sem snúa að undanþágum vegna liðaskipta leikmanna á miðju tímabili. „Ég held að heimildin sé ekki nægjanlega vel orðuð og að þetta sé komið út í það að reglurnar séu orðnar yfirsterkari markmiðunum og þetta er farið að vinna í andhverfu sína sem veldur því að liðin hugsa sig tvisvar um áður en þau gefa yngri markvörðum tækifæri með liðinu. Þau sækja sér frekar auka markmann og þar með er búið að ýta þeim yngri til hliðar þannig að ég get ekki séð að reglurnar séu að skila því sem þær eiga að skila.“
Víkurfréttamynd / Hilmar Bragi Bárðarson