„Við verðum að vera með ljósin kveikt á hverri æfingu“
-Daníel Guðni, þjálfari karlaliðs Njarðvíkur segir marga jákvæða hluti í gangi hjá liðinu þessa dagana
Dominos deild karla er nýfarin af stað en þrjár umferðir hafa verið spilaðar. Fjórða umferðin fer fram í kvöld og annað kvöld en þar mætir Njarðvík Tindastóli á útivelli. Sá leikur er í kvöld og hefst kl. 19:15. Karlaliði Njarðvíkur var fyrir upphaf móts spáð fimmta sætinu af þjálfurum, formönnum og fyrirliðum allra liðanna í deildinni. Víkufréttir ræddu við Daníel Guðna Guðmundsson, þjálfara Njarðvíkur, um liðið og það sem af er tímabils.
Þrjár umferðir búnar af deildarkeppninni, einn sigur og tvö töp hjá Njarðvík. Hvað finnst þér um gengi liðsins hingað til? Hvað mætti betur fara og hvað er jákvætt?
Þó svo að við myndum vilja vera með þrjá sigurleiki í farteskinu, þá eru margir jákvæðir hlutir í gangi hjá okkur þessa dagana. Liðsandinn er góður og það er stígandi í sóknarleiknum. Við þurfum að vinna enn betur í varnarleik okkar, sem ég vil sjá að verði okkar einkennismerki í vetur. Til þess að við vöxum sem lið þurfum við að vera með ljósin kveikt á hverri æfingu, temja okkur góðar venjur að hjálpast að til þess að vera enn betri.
Þið eruð með tvo erlenda leikmenn sem mega ekki spila báðir í einu. Hvernig gengur það? Býstu við að halda því fyrirkomulagi áfram út tímabilið?
Það gengur ágætlega enn sem komið er, þar sem Stefan er enn að koma til baka úr meiðslum. Þegar báðir erlendir leikmenn mínir eru heilir þá verður það vissulega krefjandi að vinna með réttu blönduna, en sterkasta blandan er inn á hverju sinni, svo einfalt er það.
Bonneau kom nokkuð öflugur inn í leikinn gegn Stjörnunni. Er hann að ná fyrri styrk?
Það var virkilega gaman að sjá hann á parketinu aftur en hann á nokkuð í land með að ná fyrri styrk. Óskandi verður hann 100% fyrr en seinna.
Snjólfur er gríðarlega efnilegur ungur leikmaður, og er með flest fráköst Njarðvíkinga í þessum þremur leikjum. Hvaða vonir bindur þú við hann í vetur?
Hann býr yfir þannig dugnaði að hver þjálfari vill eiga svona leikmann innan sinna raða. Alltaf tilbúinn að hlusta og læra og leggur sig alltaf fram. Snjólfur hefur byrjað inn á í þessum þremur leikjum sem liðnir eru af tímabilinu og ég hef mikla trú á því að hann vaxi í vetur.
Shouse virðist hafa tekist að koma Snjólfi aðeins úr jafnvægi í leiknum. Hvað hefur þú að segja um það?
Það var nokkuð hátt spennustigið í leiknum og mikil átök á milli tveggja góðra liða. Snjólfur er klár strákur og er gríðarlega kappsamur, og vil ég ekki draga úr honum þann þrótt, en hann steig aðeins út fyrir ramman okkar í leiknum gegn Stjörnunni og hann veit það.
Næsti leikur gegn Tindastól. Hvað munuð þið leggja áherslu á í þeim leik?
Við förum inn í leikinn með leikskipulag sem við munum fylgja og óskandi að það og góður varnarleikur gefi okkur jákvæð úrslit.