Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

„Við stefnum hátt“
Stjórn körfuknattleiksdeildar Keflavíkur sem var kjörin á aðalfundi deildarinnar þann 11. maí síðastliðinn. Mynd af síðu körfuknattleiksdeildar Keflavíkur
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
fimmtudaginn 19. maí 2022 kl. 08:24

„Við stefnum hátt“

– segir Magnús Sverrir Þorsteinsson, nýkjörinn formaður körfuknattleiksdeildar Keflavíkur.

Það eru ávallt gerðar miklar væntingar til körfuknattleiksliða Keflavíkur. Á því tímabili sem er nú að ljúka stóðu liðin ekki fyllilega undir væntingum, karlaliðið komst í úrslitakeppnina en var slegið út í átta liða úrslitum á meðan kvennaliðið náði ekki inn í úrslit. Undanfarin (Covid) ár hafa verið flókin og reynt mikið á starfsemi íþróttahreyfingarinnar svo líklega er mikið starf framundan hjá nýrri stjórn deildarinnar.

Hvað er framundan hjá körfuknattleiksdeild Keflavíkur?

„Það er talsvert mikið framundan. Það er mikið af nýju fólki að koma inn í stjórn svo við þurfum að hafa hraðar hendur við að koma okkur inn í fjármálin, leikmannamálin og aðra hluti sem þurfa að vera upp á tíu svo hægt sé að hafa umgjörðina í kringum karla- og kvennalið félagsins eins og best verður á kosið. Við ætlum að leggja mikið á okkur til að það geti orðið að veruleika en til þess að svo verði er ætlunin að enn fleiri komi að starfinu með okkur en áður hefur verið – svo það frábæra starf sem unnið hefur verið hjá körfuknattleiksdeild Keflavíkur undanfarin ár verði enn betra.“

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Verða nýjar áherslur með nýjum formanni?

„Já, það kemur alltaf eitthvað nýtt með nýju fólki. Það er nokkuð ljóst að við munum gera breytingar og reyna að bæta nokkra þætti. Við ætlum að leggja okkur vel fram og markmiðið er að bæta ýmsa þætti. Vonandi mun það ganga upp. Ætlun okkar er t.d. að skapa enn meiri og betri umgjörð í kringum liðin okkar og sömuleiðis að bjóða upp á meiri skemmtun á leikjum.“

Magnús er þekktari sem knattspyrnumaður, hér er hann í leik með Reyni Sandgerði á síðasta ári. Mynd úr safni Víkurfrétta

Umgjörð deildarinnar

Hver eru helstu málin?

„Það er í raun af mörgu að taka en það má kannski nefna það helst að við höfum ráðið framkvæmdastjóra í hlutastarf sem hefur störf strax. Hann mun sjá um þætti er snúa að rekstri félagsins og þessum daglegu verkefnum. Ætlun okkar er að semja við þá leikmenn sem Hjalti og Hörður Axel [Vilhjálmssynir] telja mikilvæga pósta fyrir framhaldið og vonandi getum við sótt einhverja fleiri þótt íslenski „leikmannamarkaðurinn“ sé bæði lítill og oft flókinn. Þá er ætlunin að virkja enn fleiri til að taka þátt í starfi félagsins svo umgjörðin og rekstur deildarinnar sé eins og best verður á kosið. Keflavík býr það vel að við eigum mikið af frábærum velunnurum og stuðningsmönnum. Margt af því sem við ætlum svo að gera lýtur að því að gera leikmönnum og þjálfurum Keflavíkur kleift að einbeita sér að körfuboltanum, hafa gaman og njóta þess að vera hluti af góðri og þéttri liðsheild.“

Þið hafið verið að klára samninga við leikmenn þessa dagana, munum við sjá miklar breytingar á leikmannahópum Keflavíkur?

„Það er auðvitað smá óvissa með það. Það er mikið í gangi á skrifstofunni þessa dagana. Við erum að auðvitað að ræða við okkar þjálfara, endursemja og ræða við leikmenn sem verið hafa hjá okkur og svo höfum við verið að skoða hvernig landslagið er með styrkingar í bæði karla- og kvennaliðið. Eins og ég nefndi áðan er markaðurinn lítill og oft erfiður en vonandi getum við bætt einhverjum púslum við. Það er klárt mál að við stefnum á að koma sterkari til leiks á næsta tímabili en það verður hins vegar að ráðast hvort það verði með því að okkar leikmenn stígi enn meira upp eða með íslenskum eða erlendum viðbótum. Nú eða bara sitt lítið af hvoru!“

Ný stjórn körfuknattleiksdeildar Keflavíkur er þegar byrjuð að vinna í leikmannamálum og hefur m.a. endurnýjað samning sinn við þá Jaka Brodnik og Val Orra Valsson. Á nýliðnu tímabili skilaði Jaka Brodnik fjórtán stigum og 5,5 fráköstum að meðaltali í leik og Valur Orri skilaði tæpum níu stigum og fimm stoðsendingum að meðaltali í leik. Á myndinni handsala þeir Brodnik og Magnús samninginn. Mynd af síðu körfuknattleiksdeildar Keflavíkur

Hvert skal stefna á næsta tímabili?

„Við stefnum hátt á næsta tímabili,“ segir Magnús og heldur áfram: „Krafan er alltaf sú að Keflavík berjist um það sem í boði er og allir sem koma að starfi Keflavíkur í körfubolta setja þar að leiðandi stefnuna hátt. Við ætlum okkur kannski einhverjar breytingar en það verður ekki gerð breyting á þessari stefnu, það er ljóst ...“