"Við spiluðum skelfilega!"
Ekki verður af því að Keflavíkur verji alla titla sína frá síðasta vetri því Haukar slógu þær út úr Bikarkeppni KKÍ með glæsilegum og verðskulduðum sigri, 100-72. "Við spiluðum skelfilega," sagði Sverrir Þór Sverrisson, þjálfari í leikslok. "Það vantaði alla baráttu og hungur til að vinna þennan leik. "
Keflvíkingar töpuðu sínum fyrsta leik á tímabilinu gegn grönnum sínum í Grindavík fyrir skemmstu og var þar ljóst að nýr leikmaður liðsins, Latoya Rose, var ekki nálægt því að fylla skarð Resheu Bristol sem yfirgaf herbúðir þeirra á dögunum.
Rose átti síður en svo betri leik í kvöld, en ástæður tapsins liggja í þeirri staðreynd að Haukar mættu af fullum krafti í leikinn og slógu Keflvíkinga út af laginu.
Haukarnir náðu forystunni í upphafi og voru við stjórnvölinn allan leikinn. Þær höfðu 8 stiga forskot í hálfleik, 46-38, en í 3. leikhluta gerðu þær út um leikinn með 33-8 kafla sem gerði allar vonir Keflvíkinga um sæti í úrslitum á móti Grindavík að engu.
Keflavík náði að klóra aðeins í bakkann í síðasta fjórðungnum, en tapið var staðreynd og verður því ekki fullt hús hjá þeim í ár.
Ebony Shaw og Helena Sverrisdóttir fóru fyrir Haukum og áttu báðar stórleik. Shaw með 36 stig og 10 fráköst og Helena með 17 stig, 11 stoðsendingar og 21 frákast.
Birna Valgarðsdóttir og Anna María Sveinsdóttir voru bestar í Keflavíkurliðinu, Birna með 21 stig og Anna María 12. María Ben Erlingsdóttir og Bryndís Guðmundsdóttir áttu einnig góða spretti.
"Vörnin hjá okkur var hræðileg, en Haukarnir voru bara grimmari og langaði meira að vinna þennan leik," sagði Sverrir að lokum og bætti við að nú væri bara horft fram á veginn og einbeitt sér að næstu leikjum.