Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Við ofurefli að etja
Þorkell Máni aðstoðarþjálfari og Kristján Guðmundsson þjálfari ræða málin.
Laugardagur 20. júlí 2013 kl. 18:16

Við ofurefli að etja

Keflvíkingar steinlágu gegn FH 0-4

Keflvíkingar sáu aldrei til sólar gegn gríðarsterkur FH-ingum í Pepsi-deild karla á Nettóvellinum. Íslandsmeistarar FH höfðu 0-4 sigur þar sem þeir sýndu mikla yfirburði.

Keflvíkingar stilltu upp liði sem innihélt nánast bara heimamenn en allir leikmenn sem hófu leikinn hafa spilað fyrir 2. flokk Keflavíkur, að undanskildum Frans Elvarssyni og Grétari Grétarssyni. Strax frá upphafi var ljóst að á brattann yrði að sækja fyrir heimamenn en FH-ingar byrjuðu af krafti og Bergsteinn Magnússon, sem aftur varði mark Keflvíkinga, mátti taka á honum stóra sínum í þrígang á upphafsmínútunum.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Fyrsta mark leiksins kom eftir 15 mínútur en þá skoraði Guðmann Þórisson fyrir FH eftir hornspyrnu. Fleiri mörk litu ekki dagsins ljós í fyrri hálfleik þrátt fyrir að FH-ingar gerðust líklegir. Keflavík átti sín færi en þau voru ekki ýkja hættuleg.

Í byrjun síðari hálfleiks jók besti maður vallarins, Björn Daníel Sverrisson, forystuna fyrir Hafnfirðinga með skalla, enn eftir hornspyrnu. Það virtist aldrei lifna yfir Keflvíkingum og einungis var spurning hve stór ósigurinn yrði. FH bætti við tveimur mörkum á síðasta hálftímanum en þar var á ferðinni Atli Viðar Björnsson. Topplið deildarinnar sýndi einfaldlega styrk sinn í þessum leik og lönduðu þremur stigum án teljandi erfiðleika.

Frans Elvarsson lék sem bakvörður í leiknum.

Hörður Sveinsson í upplögðu marktækifæri. Ekki vildi tuðran inn.

Bojan Ljubicic í baráttu við Jón Jónsson.

Theodór Guðni Halldórsson spilaði sínar fyrstu mínútur í efstu deild.