Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Íþróttir

Við förum erfiðu leiðina í ár
Þriðjudagur 18. mars 2008 kl. 23:36

Við förum erfiðu leiðina í ár

Njarðvíkingar gerðu 30 stig í þriðja leikhluta gegn Grindavík í síðustu umferð Iceland Express deildar karla í körfuknattleik í kvöld er liðin mættust í Ljónagryfjunni. Njarðvíkingar höfðu góðan 102-92 sigur í leiknum þar sem Hörður Axel Vilhjálmsson og Damon Bailey léku vel í liði heimamanna en Adama Darboe og Jamaal Williams voru atkvæðamestir í liði Grindavíkur.
 
Hörður Axel fór á kostum í liði Njarðvíkinga í þriðja leikhluta og skoraði nokkrar glæsilegar þriggja stiga körfur. ,,Við ætluðum okkur að tryggja fjórða sæti í deildinni og það tókst og frammistaðan í þriðja leikhluta var grunnurinn að sigri okkar í kvöld,” sagði Hörður Axel í samtali við Víkurfréttir en hann lauk leik í kvöld með 21 stig og 5 stoðsendingar. ,,Það var mikið undir í kvöld og kannski smá stress í mönnum framan af,” sagði Hörður en Grindvíkingar voru örlítið líflegri en heimamenn í fyrri hálfleik.
 
Njarðvíkingar mæta Snæfell í fyrstu umferð úrslitakeppninnar sem hefst skömmu eftir páska og verða Njarðvíkingar með heimaleikjaréttinn. ,,Þetta verður besta rimman af þessum fjórum í fyrstu umferð úrslitakeppninnar. Við förum erfiðu leiðin í ár en hinar rimmurnar eru engu að síður hörkurimmur og það geta allir unnið alla,” sagði Hörður Axel.
 
Gestirnir úr Grindavík komust snemma í 6-13 í Ljónagryfjunni í kvöld en heimamenn voru ekki af baki dottnir og jöfnuðu metin í 15-15 en Grindavík leiddi 19-23 eftir fyrsta leikhluta með troðslu frá Jamaal Williams undir lok leikhlutans. Williams var gríðarsterkur í fyrri hálfleik í kvöld en nokkuð rann af honum í þeim síðari.
 
Helgi Jónas stríddi Njarðvíkingum framan af öðrum leikhluta og stal alls 4 boltum í kvöld. Snemma gerðu gulir 9-0 áhlaup og staðan orðin 22-34 fyrir gestina en heimamenn svöruðu þá með 15-2 áhlaupi og komust yfir 37-36 með tveimur vítaskotum frá Jóhanni Árna Ólafssyni. Staðan var þó 43-44 fyrir Grindvíkina í leikhléi og Williams atkvæðamestur gestanna með 16 stig og 5 fráköst en Damon Bailey kominn með 11 stig og 6 fráköst hjá Njarðvík.
 
Njarðvíkingar tóku öll völd í þriðja leikhluta og hófu hann á 10-0 rispu og unnu leikhlutann á endanum 30-22 með Hörð Axel Vilhjálmsson í broddi fylkingar. Tilþrif leikhlutans voru þegar miðherjinn Friðrik Stefánsson gaf glæsta sendingu aftur fyrir bak á Sverri Þór Sverrisson í teignum sem lagði boltann snyrtilega í netið. Sannkallaðir bakvarðataktar hjá landsliðsmiðherjanum Friðriki Stefánssyni. Staðan var 73-66 fyrir Njarðvík fyrir fjórða leikhluta og þeir héldu forskotinu allt þar til flautan gall og lokatölur 73-66.
 
Jamaal Williams fór af velli með 5 villur þegar fjórði leikhluti var hálfnaður og þrátt fyrir nokkra spretti hjá Grindavík lá það alltaf í loftinu að Njarðvík myndi vinna leikinn.
 
Stigahæstur hjá Njarðvík var Damon Bailey með 25 stig og 12 fráköst en Hörður Axel gerði 21 stig og gaf 5 stoðsendingar. Þá voru þeir baráttuglaðir félagar Guðmundur Jónsson (13 stig) og Jóhann Árni Ólafsson (9 stig) að ógleymdum Brenton Birmingham með 18 stig.
 
Jamaal Williams lauk leik með 23 stig og 7 fráköst og Adama Darboe var með 20 stig og 6 stoðsendingar. Páll Axel var í strangri gæslu en skorarar af hans gæðaflokki kveðja ekki parketið nema setja nokkrar körfur. Páll lauk leik með 19 stig og Igor Beljanski gerði 9. Þeir Þorleifur Ólafsson og Helgi Jónas Guðfinnsson voru með 7 stig hvor.
 
 
VF-Mynd/ [email protected]Njarðvíkingar í fullu fjöri í Ljónagryfjunni í kvöld
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024