„Við erum miklu betri en þetta,“ sagði Guðjón Skúlason
„Það fór allt úrskeiðis,“ sagði Guðjón Skúlason, þjálfari Keflavíkur en þeir steinlágu fyrir ÍR í gær í Seljaskóla 106-89 og er þar með jafnt í einvíginu 1-1. Oddaleikurinn fer fram á morgun í Toyotahöllinni í Keflavík kl. 19:15 og ræðst þá hverjir komast í undanúrslitin.
„Við vorum varnarlega mjög slappir og alltof ákafir í að gera hluti sem skiluðu okkur engu í kjölfarið,“ sagði Guðjón í samtali við Víkurfréttir í dag. „Ég get ekki sagt að þetta hafi verið vanmat hjá okkur heldur voru menn bara of ákafir í að klára leikinn í von um að þeir myndu brotna án þess að gera of mikið og þess vegna fór þetta svona illa fyrir okkur.“
Guðjón var ekki sáttur með sína menn í fyrri leik liðanna þar sem Keflvíkingar sigruðu nokkuð örugglega og sagði þá að vörnin hafi verið slök. „Sóknin var miklu betri í leiknum á undan þrátt fyrir lélegan varnarleik. Þegar þeir ná góðu forskoti í leiknum, þá ætlum við að redda því á „no-time“, gleymum varnarleiknum og gefum þeim auðveldar körfur í kjölfarið.“
Oddaleikurinn fer fram á morgun og sagði Guðjón þá ætla að mæta klára í leikinn. „Við erum miklu betri en þetta. Við fengum alvarlega áminningu um að það þýðir ekkert að mæta í leikinn heldur þurfum við að klára hann líka. Við mætum klárir í leikinn á morgun og sýnum troðfullu sláturhúsinu hvernig við bætum fyrir tapið í gær.“
[email protected]