Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

„Við erum í kjörstöðu til þess að klára dæmið“
Föstudagur 28. mars 2014 kl. 14:00

„Við erum í kjörstöðu til þess að klára dæmið“

Logi Gunnarsson nýtur forréttindanna að fá að taka þátt í íslensku úrslitakeppninni

Njarðvíkingar eru þessa stundina í bestu stöðu Suðurnesjaliðanna í úrslitakeppni Domino’s deildar karla í körfubolta. Njarðvíkingar leiða 2-0 gegn Haukum og getur liðið tryggt sér sæti í undanúrslitum með sigri í Ljónagryfjunni í kvöld. Bakvörðurinn reyndi Logi Gunnarsson hefur ýmsa fjöruna sopið en hann er afar sáttur við stöðuna sem og tímabilið í heild, en Logi kom sem kunnugt er úr atvinnumennsku til Njarðvíkinga fyrr í vetur.

„Maður vissi að þetta yrði hörkurimma. Við erum í kjörstöðu til þess að klára dæmið og mér líst vel á að spila á heimavelli í kvöld fyrir okkar fólk. Þó svo að við höfum 2-0 forystu þá er ég óhræddur við það að menn verði værukærir eins og stundum vill verða,“ segir Logi en Njarðvíkingar hafa ekki klárað rimmu í lengri tíma í úrslitakeppni og nú telur Logi að tími sé til kominn. „Við höfum spilað mikið saman og eigum bara eftir að verða betri, sérstaklega með innkomu Ólafs Helga og Maciej.“ Logi veit sem er að Njarðvíkingar eru ekki búnir að vinna leikina gegn Haukum með mjög sannfærandi hætti, en hann telur það mikilvægt skref fyrir félagið að komast áfram í næstu umferð eftir magurt gengi undanfarinna ára í úrslitakeppninni. Liðið hefur ekki farið í undanúrslit frá árinu 2010 en þá töpuðu Njarðvíkingar gegn Keflvíkingum 3-1.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Frábær tímasetning hjá Einari

Á dögunum tilkynnti Einar Árni Jóhannsson þjálfari Njarðvíkinga að hann hygðist hætta þjálfun meistaraflokks. Einar hefur verið með í verkefni sem hófst fyrir rúmum tveimur árum þar sem ákveðið var að byggja liðið upp af ungum heimamönnum. „Það er búið að vera ákveðið ferli í gangi hjá þessu unga liði. Ég held að þetta sé frábær tímasetning hjá Einari að tilkynna þetta núna. Mér hefði fundist það óréttlátt hefði hann ekki gert það, þar sem margir leikmenn liðsins hafa verið með honum frá því að þeir fóru að drippla bolta. Það er gott að fá aukinn kraft með þessu og klára dæmið með Einari á frábærum nótum. Menn vilja oft klára fyrir þjálfara sinn á fullu gasi og gefa honum eitthvað til þess að geta gengið stoltur frá borði,“ segir Logi um ákvörðun þjálfarans.
Nú er að klárast ákveðið tímabil hjá Njarðvík þar sem breytingar eru að verða á liðinu og stjórn. Elvar Már er að fara erlendis og nýr þjálfari kemur til með að stjórna liðinu í haust. Logi sjálfur samdi til eins árs en hann segist vel getað hugsað sér að vera áfram í grænu. Hann sé þó aðeins að hugsa um úrslitakeppnina að svo stöddu og ekki farinn að huga að framtíðinni.

„Þú ert að gera þetta fyrir þitt bæjarfélag og þitt fólk. Ég tel þetta bara vera þvílík forréttindi“

Íslenska úrslitakeppnin einstök

Logi segir að hann sé ánægður með tímabilið hjá Njarðvík til þessa en hann kom til uppeldisfélagsins eftir langa dvöl erlendis áður en tímabilið hófst. „Auðvitað eru nokkrir leikir sem við hefðum viljað vinna og gaman hefði verið að fara alla leið í bikarúrslitin. Það gekk ekki eftir en svoleiðis er boltinn. Yfir heildina er ég sáttur við minn leik og liðsins.“
Logi er gríðarlega reynslumikill og hann reynir að miðla af visku sinni til ungu strákanna. Hann veit sjálfur hve sérstök íslensk úrslitakeppni er og á ferli sínum erlendis saknaði hann oft heimahaganna þegar vora tók. „Hér er maður að spila fyrir andlit sem maður þekkir í stúkunni og þetta er allt svo nærri manni. Þú ert að gera þetta fyrir þitt bæjarfélag og þitt fólk. Ég tel þetta bara vera þvílík forréttindi fyrir mig að fá svona leiki eins og gegn Haukum á föstudag.“ Logi segir að hann reyni að miðla þessu til ungu leikmannanna, að þeir eigi að njóta þessara augnablika.
„Það er búin að vera frábær stemning gegn Haukum hingað til og við treystum mikið á kraft og leikgleði sem kemur að miklu leyti frá áhorfendum.“

Stóri maðurinn búinn að léttast um 15 kíló

Miðherjinn Tracy Smith hefur heldur betur vakið athygli fyrir vasklega framgöngu að undanförnu enda búinn að leika stórkostlega gegn Haukum. Kappinn var ekki ýkja hreyfanlegur þegar hann mætti fyrst í Ljónagryfjuna og mátti sæta nokkurri gagnrýni fyrir aukakílóin. „Hann er að nálgast sitt besta form og það sést vel á leik hans,“ segir Logi en Smith er búinn að missa heil 15 kíló síðan hann kom um síðustu áramót. „Hann er klárlega besti stóri leikmaðurinn í þessari deild, ásamt Michael Craion,“ segir Logi að lokum en Njarðvíkingar freista þess að klára Hauka í Ljónagryfjunni í kvöld þar sem leikurinn hefst klukkan 19:15.