Við áramót: Frumkvöðlar áberandi á Suðurnesjum
Vilhjálmur Árnason þingmaður Sjálfstæðisflokks lítur um öxl
Þingmaðurinn Vilhjálmur Árnason segir að starfsemi frumkvöðla á Suðurnesjum sé í mikilli sókn. Eins þykir honum atvinnuuppbygging vera á réttri leið á svæðinu, þar sem fjölmörg ný verkefni séu farin af stað.
Hvað stóð upp úr í fréttum ársins 2014 á Suðurnesjum?
Þær fjölmörgu fréttir af atvinnuuppbyggingu sem margir aðilar hafa unnið að síðastliðin ár og hvernig sú vinna er nú að skila sér. Fjölmörg ný verkefni sem ýtt hefur verið úr vör; ný fyrirtæki hafa hafið rekstur; skrifað undir fjárfestingasamninga. Þá hafa fyrirtæki á svæðinu stóraukið umsvif sín og nú síðast þegar fyrstu hraunhellunni var lyft vegna stækkunar upplifunarsvæðis og byggingu nýs hótels við Bláa Lónið.
Hvaða Suðurnesjamaður var mest áberandi að þínu mati þetta árið?
Það er í raun ekkert eitt svar við þessu, hins vegar fannst mér frumkvöðlar á Suðurnesjum mest áberandi. Það eru svo margir að vinna í frumkvöðlastarfsemi hér á Suðurnesjum og fjölgar þeim stöðugt. Það hefur verið gaman að fylgjast með þessum mikla krafti sem er svo víða hér á svæðinu. Kristallast hann hjá rótgrónum fyrirtækjum, í menntastofnunum, í nýjum fyrirtækjum sem eru að koma á svæðið og svo bara frumkvöðlar sem koma hingað til að hrinda sínum hugmyndum í framkvæmd. Mig langar að nefna tvo aðila sem hafa verið áberandi í að segja frá því sem þau eru að gera og þannig kynna hvað hægt er að gera með réttu hugarfari. Það eru þau Albert Albertsson, aðstoðarforstjóri HS Orku annars vegar, sem hefur fjallað um auðlindagarðinn á Reykjanesi og Erla Ósk Pétursdóttir framkvæmdastjóri hjá Codland hins vegar sem hefur fjallað um starfsemi fyrirtækisins í fullvinnslu sjávarafurða.
Hvað var það jákvæðasta sem gerðist á árinu?
Það er af mörgu að taka þar en ætla þó að leyfa mér að stikla á því helsta. Eins og áður var nefnt er atvinnuuppbyggingin það jákvæðasta að mínu mati. Þá stóð aukafjárveitingin til Fisktækniskólans uppúr hjá mér á árinu. Enn fremur má nefna góðan árangur Sjálfstæðisflokksins í Grindavík í sveitarstjórnarkosningunum.
En það neikvæðasta?
Sú neikvæðni sem endurspeglast hefur í umræðunni hér á Suðurnesjum almennt. Gagnrýni er nauðsynleg og hlutina þarf að ræða en við megum ekki gleyma gleðinni og nýta þau fjölmörgu tækifæri sem við höfum til efla Suðurnesin enn frekar.
Hvað stóð upp úr persónulega hjá þér á þessu ári?
Það var þegar við Sigurlaug eignuðumst okkar þriðja strák sem er algjör gleðigjafi.
Ætlar þú að strengja áramótaheit?
Ég hef nú aldrei gert það formlega en maður hefur alltaf viss markmið að stefna að hverju sinni.
Hvað breytingar viltu sjá á Suðurnesjum á nýju ári?
Meiri jákvæðni, bjartsýni og framtakssemi.