„Við ætlum okkur sigur gegn Val, það er ekki spurning,“ segir Haraldur
„Mér fannst við spila ágætlega gegn Blikum. Fyrri hálfleikur var sérstaklega fínn af okkar hálfu og dapurt að fara ekki með 1-0 eða jafnvel 2-0 í hálfleik,“ sagði Haraldur Guðmundsson fyrirliði Keflvíkinga í samtali við VF.
„Við eigum leik inni gegn Val og við horfum upp á við í stað þess að hræðast botninn. Það er betra að líta á þetta jákvæðum augum. Við þurfum samt klárlega á stigum að halda gegn Val og ég vona að fólk sé ekki búið að gefast upp á okkur og mæti á völlinn. Valsararnir eru búnir að vera seigir en við tökum þá heima á fimmtudaginn, ekki spurning,“ segir Haraldur Guðmundsson fyrirliði Keflavíkur en nánar verður spjallað við fyrirliðann í næsta blaði Víkurfrétta.
Hér má svo sjá myndasafn úr leik Breiðabliks og Keflavíkur frá Tomasz Kolodziejski ljósmyndara.
Mynd/Tomasz Kolodziejski: Haraldur gegn Blikum í gær