Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Föstudagur 15. mars 2002 kl. 11:46

„Við ætlum okkur auðvitað sigur í kvöld“ -segir Falur Harðarson

Í kvöld kl. 20:00 taka Keflvíkingar á móti Haukum í 8-liða úrslitum Epson-deildarinnar. Fyrirfram eru Keflvíkingar taldir öryggir sigurvegarar en allt getur þó gerst. Falur Harðarson leikstjórnandi Keflvíkinga er kominn á fullt aftur eftir erfið meiðsli og mun hann eflaust láta mikið af sér kveða í kvöld enda vanur að láta til sín taka í leikjum sem skipta máli....Hvernig leggst leikurinn í kvöld í þig ?
„Mjög vel. Við ætlum okkur auðvitað sigur og ekkert annað. Fólk telur eflaust að þetta verði auðveldur sigur hjá okkur þar sem við erum í 1. sæti en þeir í 8. sæti. Þetta mun þó koma til með að verða mjög erfiður leikur en ég hef fulla trú á okkur, sérstaklega á heimavelli.

Takið þið þetta 2-0?
„Já, það er mjög mikilvægt fyrir okkur að taka þetta í tveimur leikjum svo það verði ekki óþarfa pressa á okkur. Þó svo við leggjum alltaf upp með þetta klassíska; að taka einn leik fyrir í einu, munum við reyna að klára þetta í tveimur“.

Hver er ykkar helsti styrkur og galli?
„Okkar styrkur er auðvitað hversu fljótir við erum og hvað við spilum hraðann bolta. Við erum eins og alltaf með góðar skyttur og það mun verða erfitt að stoppa okkur ef þær komast í gang. Það eru nú ekki margir gallar á liði okkar en við erum töluvert lágvaxnari en önnur lið en ég tel það þó vera meira vandamál fyrir hin liðin“.

Ertu orðinn góður af meiðslunum?
„JÁ“

Hvaða lið mætast í úrslitum?
„Við munum spila við Hamar í 4-liða úrslitum og í hinum leiknum mætast Njarðvík og Grindavík. Það verður svo vonandi nágrannaslagur af bestu gerð í úrslitaleikjunum milli Keflavíkur og Njarðvíkur“.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024