Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Vi här Omarsson!
Elías Ómarsson er að gera það gott með Valerenga
Fimmtudagur 9. júlí 2015 kl. 15:00

Vi här Omarsson!

„Hugsa um hvað ég er heppinn að vera þar sem ég er“ -segir Elías Ómarsson

Elías Ómarsson kvaddi Ísland og Pepsí deildina síðastliðið haust þegar hann ákvað að söðla um og ganga til liðs við norska úrvalsdeildarliðið Valerenga. Elías, sem er fæddur árið 1995, var útnefndur efnilegasti leikmaður Pepsí deildarinnar á síðasta ári og fylgdi þar með í fótspor Arnórs Ingva Traustasonar sem fékk sömu útnefningu árið áður og hélt utan í atvinnumennskuna. Nýr kafli í knattspyrnuferli Elíasar er nú hafinn þar sem Valerenga hefur verið að spila vel í norsku deildinni og eru á meðal þriggja efstu liða þegar þetta er skrifað og hefur okkar maður komið þónokkuð við sögu í velgengi liðsins, en Elías skoraði bæði mörk liðsins í 2-1 sigri á Odd um síðustu helgi og vann hug og hjörtu stuðningsmanna. Elías gaf sér nokkrar mínútur til að spjalla við blaðamann Víkurfrétta um lífið og fótboltann í Noregi.


Síðustu vikur hafa verið afar góðar hjá þér. Þú skorar mark í 3-0 sigri U21 landsliðsins á Makedóníu og skorar svo tvö mörk fyrir aðallið Valerenga í 2-1 sigri á Odd um liðna helgi. Hver hefur verið lykillinn að þessari velgengni?

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

„Ég hef verið að taka mikið af aukaæfingum. Ég byrja nokkrum sinnum í viku klukkan 8 á morgnana á styrktaræfingum með sjúkraþjálfaranum okkar og er svo yfirleitt lengur eftir allar æfingar að vinna aukalega í mínum leik þar sem ég er mikið í því að æfa að klára færi.“

Eftir leikinn á móti Odd var þér fagnað eins og þjóðhetju af stuðningsmönnum liðsins sem kyrjuðu nafn þitt löngu eftir að leik lauk. Hvernig tilfinning var það?

„Þessi tilfinning var hreint út sagt ólýsanleg. Ég var fyrst og fremst ánægður með að vinna leikinn og að skora 2 mörk. Það skemmdi ekkert fyrir hvað stuðningmennirnir voru góðir og studdu mig og allt liðið í heild sinni.“

Elías í viðtali við norska fjölmiðla eftir leikinn gegn Odd - stuðningsmenn liðsins sungu “Vi har Omarsson, vi har Omarsson“ á meðan viðtalinu stóð.

Setur það ekki aukna pressu á þig að vera líkt við Viðar Örn Kjartansson í viðtölum ytra, Viðar auðvitað með ótrúlegt tímabil í fyrra eins og flestir þekkja og skoraði 25 mörk í 29 leikjum fyrir Valerenga?

„Ég hugsa voða lítið út í það. Viðar gerði ótrúlega góða hluti hérna og ég væri alveg til í að ná sama árangri, ef ekki betri en það verður erfitt að toppa hans árangur. Ég mæti tilbúinn í hvern einasta leik og legg mig alltaf 100% fram og vonandi skilar það góðum árangri.“

Hefur frammistaða þín með liðinu í síðasta leik aukið frægð þína í heimabænum? Eru stelpurnar byrjaðar að flauta á eftir þér úti á götu?

„Haha, ég get ekki sagt það en hef jú fengið  nokkrar vinabeiðnir á facebook og svo hefur aukist smá í followers á bæði twitter og instagram en ég pæli svo sem ekkert í því. Það hefur reyndar ekkert verið flautað neitt á eftir mér hingað til.“

Elías fagnar marki í leik með Keflavík á síðustu leiktíð

Hvernig hefur þér gengið að aðlagast fótboltanum og lífinu í Noregi hingað til?

„Bara virkilega vel, þetta er fljótt að koma. Ég hef komist í betra form og hlaupagetan mín er mun meiri en hún var. Mér líður rosalega vel hérna í Noregi, þetta er svolítið öðruvísi en í Keflavík, mun meira líf á götunum hérna og alltaf eitthvað hægt að gera.“

Eðlilega hlýtur að vera töluverð breyting að fara úr Pepsí deildinni í norsku úrvalsdeildina, er eitthvað sem hefur komið þér á óvart í þessu ferli fram að þessu?

„Já, það er töluverð breyting. Það er mun meiri hraði, meiri gæði og svo er deildin náttúrulega töluvert lengri þar sem það eru fleiri lið í deildinni hérna. Það hefur svo sem ekki mikið komið mér á óvart.“

Finnst þér þú eiga heima í byrjunarliði Valerenga miðað við hvað þú hefur sýnt að undanförnu í leikjum og á æfingum?

„Miðað við síðasta leik sem ég spilaði þá finnst mér ég verðskulda byrjunarliðssætið en það er ekkert sem ég get gert í því nema að vinna vel og standa mig á öllum æfingum og í öllum leikjum því á endanum velur þjálfarinn ellefu leikmenn sem hann heldur að geti unnið leikinn. Það er hann sem skoðar myndbönd af leikjum mótherjana og hann stillir liðinu upp eftir því hvernig taktík hann vill spila á móti þeim og maður þarf að virða það.“

Hvernig er týpískur dagur í lífi Elíasar Ómarssonar í dag?

„Ég vakna alla morgna kl. 06:50 eða 7:50 eða 6:50, nema á frídögum liðsins og fer frammúr og fæ mér morgunnmat. Svo rölti ég á æfingu með tónlist í eyrunum, fæ mér kaffibolla í klefanum og fer svo á æfingu. Eftir æfingu borðum við á æfingasvæðinu og svo rölti ég bara heim. Er yfirleitt búinn að öllu í síðasta lagi 12:30, svo á ég bara allan daginn fyrir mig.“

Hvernig meturðu möguleika liðsins í deildinni í ár?

„Við eigum ennþá ágæta möguleika á að vinna deildina, við erum í þriðja sæti núna aðeins 6 stigum fyrir aftan Rosenborg sem eru á toppnum. Viið stefnum á efstu þrjú sætin og erum þar núna en það er helmingurinn eftir af deildinni og við förum ekkert frammúr okkur og  tökum einn leik fyrir í einu. Við erum að spila vel en það hafa dottið inn leikir sem við „eigum“ að vinna en höfum verið kærulausir og misst nokkra frá okkur.“

Hvað með framtíðarmarkmið? Seturðu markið á stærri deildir í Evrópu seinna meir?

„Markmiðið mitt núna er að komast í byrjunarliðið hjá Valerenga. Ég er ennþá ungur og ég er samningsbundinn þeim. Ég er að reyna að vinna mig inn í byrjunarliðið, þannig að ég hugsa ekkert of langt út fyrir það. Ég er einbeittur á að vinna vel á öllum æfingum og í öllum leikjum til að ná því markmiði. En auðvitað er stefnan tekin hátt hjá mér, ég vil spila í stærri deild og þarf því að vinna hart til þess að það takist.“

Nú eru væntingar fólks til þin ábyggilega miklar sem setur aukna pressu á ungar herðar. Hvernig tækla ungir atvinnumenn andlegu hliðina á atvinnumennskunni til að hámarka sinn árangur?

„Ég persónulega fæ bara meira „boost“ út úr því. Sama hvað fólk mun segja um mig, hvort sem það sé slæmt eða gott, þá mun ég ennþá vinna eins mikið og ég get fyrir liðið og það mun aldrei breytast. Fyrir síðasta leik á móti Odd hlustaði ég bara á stuðningsmannalög frá íslenskum liðum því það minnti mig svo mikið á það þegar ég var yngri að fara á fótboltamót með öllum strákunum þar sem við gistum allir saman í skóla. Þá fór ég að hugsa um hvað ég er heppinn að vera kominn hingað og fann alla leikgleðina koma í hausinn á mér og það er eitt það mikilvægasta fyrir mér. Að vera bara jákvæður og hugsa um gömlu tímana sem minnir mig á það af hverju ég er þar sem ég er núna.“

 

Þú ert líka í eldlínunni með U21 árs liði Íslands  fyrir undankeppni EM. Hvernig líst þér á áframhaldið þar og hvaða möguleika á Ísland á því að komast uppúr þessum riðli?

„Mér líst ótrúlega vel á það. Við erum með virkilega sterkt og gott lið. Við eigum góða möguleika á að komast uppúr þessum riðli þrátt fyrir að hann sé mjög erfiður. Við erum bara með það gott lið, góða þjálfara og svo er liðsheildin ótrúlega góð. Ég er mjög bjartsýnn á áframhaldið þar.“