Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Íþróttir

VF Spjall - Dúxar í skólanum og á körfuboltavellinum
Laugardagur 25. júní 2011 kl. 12:03

VF Spjall - Dúxar í skólanum og á körfuboltavellinum

Maciej Baginski hefur æft körfubolta með Njarðvíkingum frá því hann var 10 ára gamall og hefur hann haft ýmsa þjálfara í gegnum tíðina. Maciej er fæddur í Póllandi og fluttist til Sandgerðis fjögurra ára gamall og þaðan til Njarðvíkur árið 2004. Lengst af hefur hann verið undir stjórn Einars Árna Jóhannssonar sem hann segir hafa haft hvað mest áhrif á sig sem leikmann. Maciej hefur verið hluti af öflugu yngri flokka starfi hjá Njarðvíkingum sem hafa verið sigursælir undanfarin ár.

Einnig hefur hann verið lykilmaður í yngri landsliðum Íslands og m.a. varð hann Norðurlandameistari með undir 16 ára liðinu í fyrra. Maciej segist ekki spila neina ákveðna stöðu, hann einfaldlega spili þar sem þjálfarinn segir honum að spila enda er hann fjölhæfur leikmaður. Stífar æfingar standa yfir í sumar hjá Njarðvík og Maciej æfir á hverjum degi með hinum ýmsu flokkum. Hann æfir m.a. með meistaraflokk en hann stefnir á að leika með liðinu í úrvalsdeild á komandi tímabili þrátt fyrir að vera aðeins 16 ára gamall.

„Það er allt opið í þessum nýja meistaraflokk og það fer sennilega bara eftir því hvað maður verður duglegur að bæta sig í sumar hvort maður fái tækifæri á næsta tímabili á að láta ljós sitt skína,“ segir Maciej. Hann bætir því við að líklega verði þetta erfitt fyrsta tímabil en að sjálfsögðu séu þessir ungu strákar ánægðir með að fá þetta tækifæri, en Njarðvíkingar hyggjast byggja meistaraflokk félagsins eingöngu á ungum leikmönnum innan félagsins. „Þetta eru fyrst og fremst allt mjög duglegir strákar og margir í hópnum sem eiga fullt erindi í úrvalsdeildina.“

Nýlega var Maciej valinn í úrvalslið undir 16 ára á Norðurlandamóti landsliða sem fram fór í Svíþjóð en Íslendingar höfnuðu í 2. sæti. Maciej var líka valinn maður úrslitaleiksins. Þetta var jafnframt hans þriðja mót í þeim flokki en hann lék fyrst með undir 16 ára liðinu þegar hann var einungis 14 ára sem er alls ekki algengt. Hann segir að það hafi sennilega verið Einari Árna að þakka að hann komst í liðið en Einar var þjálfari liðsins. Maciej hefur því spilað á þremur Norðurlandamótum nú þegar og á sennilega eftir að leika á tveimur í viðbót, það sé a.m.k. stefnan. „Eftir svona landsliðsferðir eru nánast allir orðnir góðir vinir og ótrúlega gaman í öllum þessum ferðum. Þegar heim er komið þá er svo sem gaman að eiga góða vini í hinum liðunum og ennþá skemmtilegra að vinna þá fyrir vikið.“

Maciej segist taka Hauk Helga Pálsson sér til fyrirmyndar en hann spilar í Maryland háskólanum í Bandaríkjunum sem er stór og virtur skóli. „Mig langar gríðarlega mikið að gera það sem hann hefur afrekað, fara í stóran og góðan skóla í Bandaríkjunum og spila körfubolta þar.“ Maciej er ekki einungis góður íþróttamaður heldur er hann afbragðs námsmaður. Hann útskrifaðist á dögunum úr Njarðvíkurskóla með hæstu meðaleinkunn úr 10. bekk. Hann segist ekki hafa búist við svona góðum árangri þó svo að hann hafi alltaf staðið sig vel í skólanum. Hann segir góðar einkunnir ekkert skemma fyrir ef hann ætli sér í nám erlendis, sem sé stefnan hjá honum. Þó ætlar hann að byrja í FS meðan hann leikur hér með meistaraflokki og svo er stefnan tekin á Bandaríkin sem fyrst þar sem hann ætlar sér í framhaldsskóla og þaðan í háskóla ef allt gengur upp.

Hvað er í uppáhaldi hjá Maciej?

Bíómynd

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

„Sem ég er búinn að sjá nýlega þá er það The Lincoln Lawyer en uppáhalds myndir allra tíma eru Remember the Titans og Shawshank redemption.“

Þáttur

„How I met your mother og One tree hill.“

Tónlist

„Engin sérstök get hlustað á allt en fýla mest svona Rnb/hip hop og Rap.“

Vefsíðan

„Facebook.com, nba.com, Karfan.is, fótbolti.net, og Visir.is eru þær helstu.“

Matur

„Elska Ítalskan og Mexíkanskan mat.“

Drykkur

„Mountain dew og Gatorade með Friut punch bragði eru í uppáhaldi.“

Bókin

„Da vinci lykillinn, Englar og Djöflar og líka nokkra bækur eftir Arnald Indriðason.“

Íþróttamaður

Michael Jordan og Steve Nash.“