Versta nýtingin til þessa
Fyrir löngu varð það frægt hversu afleit vítaskytta NBA tröllið Shaquille O´Neal væri. Shaq er einkar lunkinn við að brenna af vítaskotum og jafnan er það umfjöllunarefni fjölmiðla vestra. Í leik Njarðvíkur og ÍR í Iceland Express deild karla í gær var annar miðherji sem átti í Shaqvandræðum á vítalínunni. Friðrik Erlendur Stefánsson, landsliðsmiðherji og fyrirliði Íslandsmeistara Njarðvíkur, átti sinn versta dag á vítalínunni í gær á gjörvöllu tímabilinu.
Mörg hver skotin hefðu einfaldlega ekki ratað á hringinn hefði ekki verið málning á honum og sum þeirra hreinlega fuku út í veður og vind. Friðrik fékk 12 vítaskot í leiknum og hitti aðeins úr fjórum þeirra sem gerir 33,3% nýtingu hjá leikmanninum úr vítaskotum.
Gera má að því skóna að Einar Árni Jóhannsson, þjálfari Njarðvíkinga, sendi Friðrik á vítalínuna á næstu æfingum en Friðrik hefur tæpar tvær vikur til að kippa þessu í liðinn áður en Njarðvíkingar mæta Skallagrím í IE deildinni þann 18. janúar næstkomandi.
VF-mynd/ [email protected]