Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Verður Keflavík deildarmeistari í kvöld?
Miðvikudagur 5. mars 2008 kl. 11:12

Verður Keflavík deildarmeistari í kvöld?

Heil umferð fer fram í Iceland Express deild kvenna í kvöld þar sem Keflvíkingar geta tryggt sér deildarmeistaratitilinn með sigri á KR í DHL-Höllinni. Leikurinn hefst kl. 20:00 en Keflavík má tapa leiknum með þriggja stiga mun þar sem liðið hefur þrjú stig á KR í innbyrðisviðureignum. Með sigri tryggir Keflavík sér deildarmeistaratitilinn og heimaleikjaréttinn í úrslitakeppninni. Þannig að ef Keflavík færi alla leið í oddaleik í úrslitum Íslandsmótsins myndu þær hampa þeim stóra í Toyotahöllinn í Keflavík.

 

Reyndar gerðu Keflvíkingar ekki góða ferð í Vesturbæinn í deildarkeppninni síðast þegar liðin áttust við. Þá setti Monique Martin Íslandsmet í stigaskori kvenna í úrvalsdeild er hún setti niður 65 stig á Keflavík og KR vann leikinn 90-81. Monique er ekki lengur á mála hjá KR sökum meiðsla og nýr leikmaður, Candace Futrell, hefur tekið hennar stað í liðinu.

 

Síðustu tvö tímabil voru Haukar deildarmeistarar en þar á undan fagnaði Keflavík síðast deildarmeistaratitli eða leiktíðina 2004-2005.

 

Víkurfréttir ræddu stuttlega við Jón Halldór Eðvaldsson þjálfara Keflavíkurkvenna sem segir sína liðsmenn leggja allt í sölurnar í kvöld.

 

Þið gerðuð ekki góða för í DHL-höllina síðast. Á að bæta fyrir það í kvöld?

Það er klárt að það verður allt lagt í sölurnar í kvöld, deildartitilinn er undir og ég fer í alla leiki til að vinna. Við vorum niðurlægðar síðast þegar við fórum í DHL höllina og það er á hreinu að mínir leikmenn eru ekki búnir að gleyma því.

 

Hver er galdurinn við að leggja KR að velli?

Galdurinn? Ég veit það í raun ekki og þótt ég vissi það þá mundi ég ekki segja þér það svona rétt fyrir leik!

 

Staðan á Keflavíkurliðinu, allir heilir og tilbúnir í slaginn?

Það eru allir tilbúnir í slaginn og mannskapurinn er eins heill og hægt er.

 

Keflavík tók hliðarspor á lokasprettinum í fyrra m.a. með tapi gegn Hamri. Eru Keflvíkingar klárir þetta árið í lokasprettinn?

Ég hef enga trú á því að við séum að fara í sama pakka og í fyrra. Þetta hliðarspor í fyrra skipti engu máli það er annað uppi á teningnum núna, það er titill undir. Svo er ég núna kominn á jólakortalistann hjá Lalla formanni Hamars og það er ekki auðvelt að komast á hann.

 

Aðrir leikir kvöldsins:

19:15 Haukar-Grindavík

19:15 Hamar-Valur

 

Staðan í deildinni

 

VF-Mynd/ [email protected] - Margrét Kara Sturludóttir og liðsfélagar í Keflavík geta tryggt sér deildarmeistaratitilinn í kvöld með sigri á KR.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024