Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Verðum í Landsbankadeild eftir ár
Laugardagur 23. september 2006 kl. 19:41

Verðum í Landsbankadeild eftir ár

Grindavíkurstúkan hefur aldrei verið jafn gul og í dag og áhangendur þeirra gulu gerðu allt sem í þeirra valdi stóð til þess að bjarga Grindvíkingum frá falli en það kom ekki að sök. Grindavík og FH skildu jöfn í Landsbankadeildinni í dag, 1-1, og því féllu Grindvíkingar í 1. deild í fyrsta sinn í sögu félagsins en þeir hafa aldrei fallið fyrr en nú síðan liðið komst í efstu deild árið 1995.

Ekki mátti sjá í fyrri hálfleik hvort liðið væri Íslandsmeistari og hvort liðið væri að berjast fyrir lífi sínu í deildinni. Grindvíkingar höfðu öll völd í fyrri hálfleik og strax á 7. mínútu leiksins átti Jóhann Þórhallsson skalla fram hjá marki FH eftir hornspyrnu en hann skallaði knöttinn fram hjá úr góðu færi.

Grindavíkurvörnin var fremur óstöðug í fyrri hálfleik og skiluðu boltanum oft illa frá sér og létu FH vinna boltann á hættulegum svæðum framan við Grindavíkurmarkið. Þrátt fyrir smá hik í vörninni voru Grindvíkingar allt í öllu á vellinum og á 18. mínútu brunar Jóhann Þórhallsson upp að FH markinu frá vinstri kanti og er kominn einn á móti Daða í markinu en skýtur í Daða og boltinn fer aftur fyrir endalínu. Grindvíkingar náðu ekki að gera sér mat úr hornspyrnunni sem kom í kjölfarið en á upphafsmínútum leiksins áttu Grindvíkingar einar sjö hornspyrnur sem fóru forgörðum.

Tommy Nielsen bjargaði FH í hvívetna á fyrstu 25 mínútum leiksins en Íslandsmeistararnir áttu nokkur færi í fyrri hálfleik en þau voru ekki hættuleg.

Í síðari hálfleik snérist taflið við og FH tók öll völdin á vellinum og var mun meira með boltann. Á 72. mínútu dró til tíðinda þegar fyrirgjöf kemur í átt að Grindavíkurmarkinu og þar fer hæst Daninn Allan Dyring og skallar knöttinn í netið og staðan 1-0 FH í vil og útlitið svart hjá heimamönnum.

Þegar Grindvíkingar voru á annað borð með boltann í síðari hálfleik reyndu þeir langar sendingar fram á Mounir Ahandour en þær báru lítinn árangur.

Vonir Grindvíkinga fuku endanlega út um gluggann þegar Ray Anthony Jónsson fékk sitt annað gula spjald á 84. mínútu og Grindvíkingar þá einum leikmanni færri. Reyndar kveikti Óskar Örn Hauksson vonarneista að nýju hjá Grindavík er hann jafnaði metin aðeins mínútu eftir að Ray var vikið af velli. Grindavík 1-1 FH og það sem eftir lifði leiks reyndu Grindvíkingar hvað þeir gátu til að bæta marki við en það hafði ekki erindi sem erfiði og því leika þeir gulu í 1. deild að ári.

Stormasöm leiktíð á enda hjá Grindvíkingum sem m.a. voru í 2. sæti deildarinnar þegar mótið var um það bil hálfnað. Fyrir leikinn í næst síðustu umferð hætti Sigurður Jónsson sem þjálfari liðsins og í upphafi leiktíðar gekk Sinisa Valdimar Kekic í raðir Þróttar í Reykjavík eftir að hafa lent upp á kant við þáverandi þjálfara, Sigurð Jónsson.

„Þetta er erfitt þegar við erum ekki að nýta færin okkar,“ sagði Magni Fannberg, annar þjálfara Grindavíkur, í leikslok. Grindvíkingar áttu aragrúa af færum í leiknum sem þeir nýttu ekki og hefðu hæglega getað gert 3-4 mörk í leiknum. „Grindavík á hvergi annars staðar heima en í úrvalsdeild og þangað verðum við komnir aftur eftir ár,“ sagði Magni en hann er með þriggja ára samning við Grindavík og því má fastlega gera ráð fyrir því að hann verði með Grindvíkinga á næstu leiktíð.

Lokastaðan í deildinni

VF-myndir/ Hilmar Bragi Bárðarson, [email protected]
Texti: Jón Björn Ólafsson,
[email protected]


 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024