Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Verðum að klára færin okkar
Fimmtudagur 24. maí 2007 kl. 14:00

Verðum að klára færin okkar

Keflavík og Breiðablik mætast í þriðju umferð Landsbankadeildarinnar í knattspyrnu í kvöld en leikurinn fer fram á Kópavogsvelli og hefst hann kl. 19:15. Færeyski landsliðsmaðurinn Símun Samuelsen hefur gert tvö mörk í tveimur leikjum fyrir Keflavík það sem af er leiktíðinni og það virðist skipta litlu máli hvar á vellinum Símun spilar hann skilar alltaf sínu. Keflavík burstaði Breiðablik 5-0 á Keflavíkurvelli í fyrra en máttu sætta sig við 2-1 tap í Kópavogi í síðari deildarleik liðanna. Símun á von á erfiðum leik í kvöld og segir dómara gera mistök rétt eins og leikmenn.

 

,,Ef ég hefði verið dómarinn þá hefði ég dæmt rautt spjald,” sagði Símun en brotið var á Símun á fyrstu mínútu leiksins gegn FH á sunnudag þar sem Íslandsmeistararnir fóru með 2-1 sigur af hólmi. ,,Dómarinn sagði að ég hefði ekki verið kominn í gegn og því hefur honum fundist þetta vera gult spjald, það var samt togað vel í mig og ég missti jafnvægið. Dómararnir gera mistök rétt eins og við leikmennirnir,” sagði Símun og bætti því við að nú væru menn einungis að hugsa um leik kvöldsins. ,,Við verðum bara að klára færin okkar, ef maður klárar þau ekki þá gerast svona hlutir eins og gegn FH, við sjáum þetta oft gerast. Útileikurinn gegn Breiðablik var erfiður í fyrra og ég fæ ekki betur séð en að þeir hafi bara styrkt sig fyrir þetta sumar,” sagði Símun sem er með samning út næstu leiktíð við Keflvíkinga.

 

Nokkuð stöðuflakk hefur verið á Símun í Keflavíkurliðinu en sjálfur segist hann geta leyst flestar stöður nema þær í vörninni. ,,Við erum með góða miðjumenn og ég er ekki að fara að taka stöðurnar þeirra,” sagði Símun sem oftast leikur annað hvort á hægri eða vinstri kanti og stundum er honum telft í fremstu víglínu en Símun er færeyskur landsliðsmaður sem á sterkar rætur að rekja til Íslands. ,,Mamma er flutt hingað til Keflavíkur og eiginlega öll fjölskyldan hennar mömmu. Afi minn, Pétur Sæmundsson, er héðan svo ég kann mjög vel við mig hérna,” sagði Símun sem er á sínu þriðja leikári með Keflvíkingum.

 

VF-Mynd/ [email protected] - Símun í leik gegn FH á dögunum.

 

 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024