Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Verðum að hætta að „lorta“
Arnór Ingvi og félagar eiga hörkuleik fyrir höndum.
Þriðjudagur 6. ágúst 2013 kl. 16:16

Verðum að hætta að „lorta“

Áhorfendur geta orðið okkar tólfti maður

Keflvíkingar þurfa á öllum þeim stuðningi sem í boði er þegar þeir taka á móti Víkingum í Pepsi deildinni í fótbolta annað kvöld. Keflvíkingar hafa hingað til aðeins náð að landa einu af 18 stigum sem hafa verið í boði á heimavelli þeirra í sumar. Liðið gerði 2-2 jafntefli gegn Fylki þann 20. maí síðastliðinn, en ekkert stig hefur komið á Nettóvelli síðan þá. Eins og gefur að skilja hefur gengi Keflvíkinga ekki verið eins og vonast var eftir og liðið situr á botni deildarinar með aðeins sjö stig eftir 12 leiki. „Við vitum sjálfir hvað við erum búnir að koma okkur út í. Gengið hefur alls ekki verið nógu gott í sumar, hvort sem það er á heima- eða útivelli,“ sagði Arnór Ingvi Traustason í samtali við Víkurfréttir í dag.

Hann segist ekki vera með lausn á vandanum sem virðist loða við liðið á heimavelli, en sjálfsagt væri ekki um vandamál að ræða ef lausnin lægi fyrir. Miðjumaðurinn er á því að nú sé kominn tími til þess að Keflvíkingar girði sig í brók, og hætti að „lorta“ eins og Arnór orðar það blákalt. Arnór gerir sér grein fyrir því að fótboltinn sé liðsíþrótt og nú reyni á samheldni í liðinu. Arnór sem lék sem atvinnumaður í Noregi seinni hluta sumars í fyrra, viðurkennir að hann hafi ekki verið að leika nógu vel í sumar. „Keflvíkingar eiga mig inni. Það er þó ekki  raunhæft að einhverjir einstaklingar geti bjargað okkur úr þessari klemmu. Við verðum allir að gera það saman,“ segir Arnór sem er markahæstur í liði Keflavíkur í sumar með þrjú mörk.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Varðandi leikinn á morgun þá segir Arnór að Keflvíkingar verði að mæta grimmir sem ljón til leiks og með allar klær úti. Hann býst við Ólafsvíkingum sterkum en þeir eru þremur stigum fyrir ofan Keflavík í deildinni og hafa styrkt sig töluvert að undanförnu. „Áhorfendur verða okkar tólfti maður. Það styrkir okkur að heyra öskur og jákvæðan stuðning frá stúkunni,“ sagði miðjumaðurinn ungi.

Á morgun mætast þau tvö lið sem hafa skorað fæst mörk í deilinni. Víkingar hafa skorað 11 á meðan Keflvíkingar hafa skorað 12. Víkingar hafa verið að verjast betur en Keflvíkignar en þeir hafa fengið á sig 21 mark á meðan Keflvíkingar hafa fengið að hirða boltann 28 sinnum úr netinu.

Leikurinn hefst kl: 19:15 á Nettóvellinum í Keflavík en um sannkallaðan sex stiga leik er að ræða í botnbaráttu deildarinnar.