Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Verðum að fara að vinna leiki
Magnús Þór afgreiðir boltann snyrtilega framhjá markverði Stjörnunnar. VF/JPK
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
mánudaginn 12. júní 2023 kl. 10:27

Verðum að fara að vinna leiki

– sagði fyrirliði Keflvíkinga eftir jafnteflisleik gegn Stjörnunni

Keflavík tók á móti Stjörnunni á HS Orkuvellinum í Bestu deild karla í knattspyrnu í gær. Keflvíkingar léku mjög agaðan varnarleik og gáfu fá færi á sér, þeir komust svo yfir snemma í seinni hálfleik en Stjarnan jafnaði um tíu mínútum fyrir leikslok.

Magnús Þór Magnússon, fyrirliði Keflavíkur, var virkilega svekktur með úrslitin og sagði liðið þurfa að fara að sækja sigur. Baráttan var góð í liðinu en eftir að hafa komist yfir bökkuðu Keflvíkingar full mikið og voru undir mikilli pressu Stjörnumanna sem skilaði að lokum marki.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Í fyrri háfleik lék Keflavík vel skipulagðan varnarleik og sprettu svo upp völlinn í skyndisóknir. Stjarnan var meira með boltann en sterk vörn heimamanna sá til þess að gestirnir sköpuðu sér engin færi.

Leikurinn var frekar fast spilaður og hvorugt lið gaf tommu eftir. Þó var aðeins eitt gult spjald sem fór á loft í fyrri hálfleik og það fékk Stjörnumaður.

Keflavík byrjaði seinni hálfleik vel og sóttu snemma upp vinstri kantinn. Þar sýndi Sindri Snær Magnússon snilldartakta þegar hann sólaði hvern varnarmann Stjörnunnar af öðrum áður en hann gaf fyrir markið þar sem Magnús Þór afgreiddi boltann snyrtilega í netið (54'). 1:0 fyrir Keflavík eftir frábært einstaklingsframtak Sindra sem var einn af betri mönnum Keflavíkur í gær.

Sindri Snær var með betri mönnum vallarins í gær.

Stjörnumenn fóru að pressa meira eftir markið og færðust stöðugt framar á völlinn en vörn Keflavíkur var þétt fyrir og að öðrum ólöstuðum vil ég hrósa Axeli Inga Jóhannessyni sérstaklega sem var eins og klettur í bakverðinum.

Keflavík beitti skyndisóknum og um fimm mínútum eftir markið átti Edon Osmani góða sendingu inn fyrir vörn Stjörnunnar á Dag Inga Valsson sem setti boltann í markið en var dæmdur rangstæður.

Harkan jókst eftir því sem leið á leikinn og stuttu eftir að annar Stjörnumaður fékk að sjá gula spjaldið var brotið fantalega á Sindra Þór Guðmundssyni þar sem hann geystist upp kantinn en dómarinn lét leikinn halda áfram við litla kátínu Keflvíkinga enda Stjörnumaðurinn á spjaldi og hefði réttilega átt að vísa honum af velli fyrir brotið.

Ekkert gefið eftir! Joey Gibbs hér í baráttunni við fyrrum samherja sína, Ásgeir Pál Magnússon og Erni Bjarnason.

Stjarnan komst lítt áleiðis og reyndi mikið háar fyrirgjafir sem Keflvíkingar réðu vel við og skot af löngu færi sem voru flest fjarri lagi. Hurð skall nærri hælum þegar Stjörnumenn náðu einu góðu skoti sem lenti ofan á þverslánni.

Þegar farið var að draga nærri leikslokum var Keflavík búið að bakka full aftarlega og eftir eina þversendingu á fjærstöng féll boltinn fyrir fætur Stjörnumanna sem jöfnuðu með föstu skotu, óverjandi fyrir Mathias Rosenord í marki Keflavíkur (81').

Svekkjandi fyrir Keflavík sem var búið að sýna frábæran varnarleik fram að þessu atviki. Lokastaðan 1:1 og Keflavík situr í neðsta sæti deildarinnar með sjö stig, þremur stigum frá ÍBV.

Jóhann Páll Kristbjörnsson, ljósmyndari Víkurfrétta, ræddi stuttlega við Magnús Þór Magnússon eftir leik. Viðtalið er í spilaranum hér að neðan og myndasafn neðst á síðunni.

Keflavík - Stjarnan (1:1) | Besta deild karla 11. júní 2023