„Verða að hressa sig við“
Keflvíkingar taka á móti finnska liðinu Lappeenrante í Evrópukeppninni í kvöld. Leikurinn fer fram í Sláturhúsinu að Sunnubraut og hefst kl. 19:15.
Fyrri viðureign liðanna lauk með 15 stiga sigri Lappeenrante í Finnlandi, 92-77. Sigur í kvöld hjá Keflvíkingum er því lykilatrið að áframhaldandi þátttöku þeirra í keppninni.
Víkurfréttir settu sig í samband við Fal Harðarson, fyrrum leikmann og þjálfara Keflavíkur, en hann segir sína menn verða að vera klára í hörkuleik.
„Ég vona að þeim takist að vinna leikinn í kvöld, þeir verða að hafa gaman af því að spila leikinn. Ég sá hluta af KR-leiknum um daginn og fannst ansi dauft yfir hópnum, hvort sem það er þreyta eða annað þá verða þeir að hressa sig við,“ sagði Falur. „Adrian Henning hefur aðeins spilað tvo leiki með liðinu og á eftir að slípa sig saman við hópinn.“
Aðspurður sagði Falur að sér hefði fundist ákvörðun KKÍ um að leyfa einungis einn bandarískan leikmann í hverju liði vera röng. „Þetta er ekki valfrelsi fyrir liðin, ef lið vilja bæta sig með erlendum leikmönnum þá eru evrópskir leikmenn bæði dýrari og lakari en bandaríkjamennirnir. Ég er þeirrar skoðunar að það megi vera með tvo útlendinga í hverju lið, sama hvaðan þeir koma. Það væri gaman að sjá þá reglu tekna upp að þú yrðir að vera með 3 íslenska leikmenni inni á vellinum í hverju liði en mættir hafa tvo útlendinga innan þinna raða saman hvaðan þeir kæmu. Rétt eins og Þjóðverjar ætla sér að gera á næsta ári,“ sagði Falur að lokum.
VF-mynd/ Moye í leik gegn KR á dögunum