Verð best á næstu leiktíð
Körfuknattleikskonan Bryndís Guðmundsdóttir er nýkomin úr aðgerð á hægra hné en fyrr á tímabilinu sleit hún krossbönd og skaðaði annan liðþófann. Bryndís hóf leiktíðina með miklum látum sem og allt Keflavíkurliðið en í þeim fjórum deildarleikjum sem hún lék með Keflavík gerði hún 20 stig að meðaltali í leik og stefndi allt í glæsta leiktíð hjá Bryndís áður en ósköpin dundu yfir. Hún sagði í samtali við Víkurfréttir að vissulega hefði verið erfitt að kyngja þessum miklu meiðslum en hún er brött og stefnir fastlega að því að ná landsliðsverkefnum síðla sumars.
,,Þær sem ég þekki og hafa átt í svipuðum meiðslum segja mér að maður þurfi að bíða í svona ár eftir að geta spilað aftur. Markmiðin mín eru að geta leikið með landsliðinu í ágúst en þetta kemur bara allt í ljós,” sagði Bryndís sem kvaðst bara nokkuð góð þrátt fyrir að vera nýkomin af skurðarborðinu. ,,Það er enn smá dofi í fætinum og hann hverfur ekki strax. Læknirinn ráðlagði mér samt að stíga í löppina en passa mig á því að ofreyna mig ekki. Ég fer bara sem hægast mínar leiðir en ég á ekki að geta skemmt neitt segir læknirinn,” sagði Bryndís en fjarveran frá Keflavíkurliðinu hefur reynst henni þungbær og sér í lagi í þeim leikjum sem Keflavík hefur tapað á þessari leiktíð.
,,Ég er alveg búin að kyngja þessum meiðslum en þetta var erfitt fyrst, sérstaklega þegar fyrsta tapið okkar kom í deildinni. Það var virkilega erfitt að horfa á þessa tapleiki og sárt að geta ekki hjálpað stelpunum inni á vellinum,” sagði Bryndís en Keflavíkurliðið á í hörðum toppslag við Grindavík, KR og Hauka.
Bryndís mun útskrifast frá Fjölbrautaskóla Suðurnesja í vor af félagsfræðibraut og hefur sökum meiðslanna haft nægan tíma fyrir bækurnar. Hún kvaðst ekki hafa verið tíður gestur á videoleigum bæjarins þrátt fyrir meiðslin. ,,Nei, ég er reyndar mikið í tölvunni og líka alveg hætt að velta mér upp úr þessum meiðslum, það er ekki hægt að leggjast í þunglyndi yfir svona löguðu,” sagði Bryndís en hún ætlar sér mikla hluti í körfuboltanum. ,,Ég hef sett mér það að markmiði að verða besti leikamðurinn í deildinni á næstu leiktíð,” sagði Bryndís og ljóst að meiðslin hafa alls engin áhrif haft á hugarfar þessarar miklu keppnismanneskju.
,,Þessi meiðsli eiga ekki að há mér í framtíðinni en hugsanlega gæti liðþófinn angrað mig þegar ég verði gömul. Annars er ég dugleg að gera æfingarnar mínar og fer brátt til sjúkraþjálfara í Reykjavík og verð einnig í sjúkraþjálfun hér í Keflavík. Nú er aðalatriðið að vinna upp styrk í hnénu.”
Senn styttist í lokasprett Iceland Express deildar kvenna í körfunni og framundan er toppslagur gegn Grindavík í bikarkeppninni. Hvernig líst Bryndísi á framhaldið hjá Keflavík?
,,Mér líst vel á bikardráttinn. Það hefði verið gaman að fá Grindavík í úrslitaleiknum í Laugardalshöll. Annars er deildarkeppnin töluvert jafnari en í fyrra og sérstaklega eftir að KR komu svona sterkar upp. Þetta er mun skemmtilegra en að hafa tvö yfirburðalið og nú hefur fólk almennt mun meiri áhuga á þessu,” sagði Bryndís en ef allt gengur að óskum þá gæti hún hugsanlega sést í landsliðstreyju síðla sumar en hún ætlar sér þó góðan tíma í bata og eins og fyrr greinir þá eru markmiðið háleit fyrir næstu leiktíð.
Texti: [email protected]
Mynd: [email protected]