VELUR FRIÐRIK LANDSLIÐIÐ?
Í kjölfar þess að Jón Arnar Ingvarsson þjálfari og leikmaður Hauka var ekki valin í leikmannahóp Jóns Kr. Gíslasonar landsliðsþjálfara fyrir leikinn gegn Króötum lét hann stór orð falla í fjölmiðlum um ákvarðanir landsliðsþjálfarans og gaf til kynna að Jón veldi alls ekki liðið heldur aðstoðarþjálfari þess Friðrik Ingi Rúnarsson sem væri að hygla nafna sínum og vini Friðrik Ragnarssyni Njarðvíkingi á kostnað Jóns. Áður en næsta umferð DHL-deildarinnar var leikin vöktu fjölmiðlar athygli á því að Jón ætti möguleika á að verða fyrsti leikmaður úrvalsdeildar til að ná 1000 stigum, fráköstum og stoðsendingum, óvænt það. Í umfjöllun Morgunblaðsins um DHL-deildina um síðustu helgi var tekið fram að Jón, nýráðinn þjálfari Hauka, hefði ólíkt öðrum þjálfurum deildarinnar stjórnað leik liðsins inni á vellinum og staðið sig vel. Var þess látið ógetið að af 12 liðum úrvalsdeildarinnar í ár eru 7 með spilandi þjálfara, þ.e.a.s meira en helming liða úrvalsdeildarinnar er stjórnað af aðila sem jafnframt leikur með liðinu. Ekki kæmi blm. á óvart ef stærstu fjölmiðlar landsins færu innan skamms að birta greinar um slakt gengi íslenska landsliðsins og hvort ekki væri rétt að leita á önnur mið er þjálfara varðaði. Þetta er ,,lobbyismi” í sinni fínustu mynd.