Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Vel heppnað golfmaraþon GS unglinga
Hópurinn saman kominn rétt áður en haldið var í lokaáfangann. VF-mynd/pket.
Sunnudagur 13. júlí 2014 kl. 10:48

Vel heppnað golfmaraþon GS unglinga

-standa fyrir fjáröflunarmóti í Leirunni 21. júlí.

Afrekshópur unglinga í Golfklúbbi Suðurnesja lauk í morgun, sunnudag, tólf tíma golfmaraþoni sem hófst aðloknu lokahófi meistaramóts klúbbsins á laugardagskvöld.

Tíu kylfingar tóku þátt í maraþoninu og léku stúlkurnar í hópnum fyrst 18 holur og tóku strákarnir við að því loknu. Í lokin léku allir saman 9 holur og fór hópurinn því 45 holur á þessum tólf tímum. Veðrið var gott þó svo það hafi aðeins rignt þegar leið á nóttina. Þá vantaði eilítið upp á birtuna um tíma en ungu kylfingarnir nutu þess að leika golf í skemmtilegri sumarnóttinni. Uppátækið var liður í fjáröflun unglinganna fyrir æfingaferð næsta vor en um síðustu páska fór hópurinn undir stjórn Inga Rúnars Gíslasonar, íþróttastjóra GS í æfingaferð til Englands. Þótti ferðin heppnast mjög vel en hópurinn æfði einnig vel í allan vetur. Árangur GS kylfinga í sumar hefur vakið athygli og þeir hafa verið í titilbaráttu á mörgum mótum á Íslandsbankamótaröðinni í sumar. Upp úr standa þrír sigrar hinnar ungu Kingu Korpak í telpnaflokki en hún er aðeins 10 ára.

Hópurinn safnaði áheitum fyrir á þriðja hundrað þúsund krónur. Næsti liður í fjáröflun verður opið golfmót sem haldið verður á Hólmsvelli í Leiru mánudaginn 21. júlí.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024