Veit ekki hvað er að gerast
-sagði Birna Valgarðsdóttir eftir annað tap Keflavíkurstúlkna gegn Val í kvöld.
„Ég veit ekki hvað er að gerast. Að tapa hér á heimavelli aftur gegn Val er óásættanlegt en við erum ekki hættar. Við ætlum að klára þetta dæmi,“ sagði Birna Valgarðsdóttir, leikreyndasti leikmaður Keflavíkurkvenna en þær töpuðu öðru sinni í undanúrslitum Domino's deildarinnar í körfubolta í Toyota höllinni í Keflavík í kvöld.
Sóknin gekk afar illa hjá Keflavíkurstúlkum og boltinn gekk ekki nógu vel á milli leikmanna. Ekki bætti úr skák að heppnin var ekki með liðinu því boltinn dansaði hvað eftir annað á körfuhringnum. „Það vantar meira flæði í sóknina og meiri grimmd í vörnina,“ sagði Birna.
Það var greinilega meiri stemmning í Valsliðinu?
„Já, því miður. Ég veit satt að segja ekki hvað er að. Þetta er ekki líkt okkur. Við tókum deildina örugglega og svo hikstum við svona í undanúrslitum. Ég ætla að tala við stelpurnar á eftir. Við þurfum að taka okkur saman í andlitinu. Þetta gengur ekki svona.“
Birna var stigahæst Keflavíkurstúlkna í kvöld.
Jessica Ann Jenkins var með 10 stig og 5 fráköst og var langt frá sínu besta.
Sara Rún geysist upp að körfunni og skorar.
Pálína skoraði 15 stig gegn Valskonum.