VefTV: „Okkur var ekki ætlað að vinna þennan leik,“ sagði Þorleifur
„Við klúðruðum vítum sem varð okkur að falli,“ sagði Helgi Jónas Guðfinnsson, þjálfari Grindvíkinga eftir þriggja stiga tap gegn Stjörnunni í oddaleik um sæti í undanúrslitum Iceland Express deildar karla í gær. „Við fengum fullt af vítum sem gat komið okkur í góða stöðu en við settum ekki eitt víti niður í restina.“
Nick Bradford gekk til liðs við Grindavík korter í úrslitakeppni og var hrikalega svekktur. „Þessi ferð til Íslands er bara stór vonbrigði, engin spurning,“ sagði Nick. „Vörnin hjá okkur var góð en sóknarleikurinn var skelfilegur. Þeir voru einfaldlega betri og sigruðu.“ Nick hefur þó áður fallið úr úrslitakeppninni snemma og gengið til liðs við annað Suðurnesjalið. Spurning hvort hann íhugi það á næstu dögum.
Þorleifur Ólafsson spilaði sinn fyrsta leik í gærkvöldi eftir að hann meiddist í úrslitaleik bikarkeppninnar gegn KR. „Þetta er gríðarleg vonbrigði en við spiluðum bara vel í tíu mínútur,“ sagði Þorleifur. „Leikurinn er jafn þegar við fáum fullt af opnum skotum í restina en þau vildu bara ekki ofan í. Svo skorum við 3 stig á þessum tíma en okkur var greinilega ekki ætlað að vinna þennan leik.“
Ljósmyndir frá leiknum má finna á ljósmyndavef Víkurfrétta með því að smella hér.
[email protected]
Nick Bradford sagði ferð sína til Íslands vera vonbrigði.