VefTV: „Heima er best“ segir Magnús Gunnarsson
Magnús Gunnarsson spilaði með Njarðvík körfubolta en hætti hjá liðinu, nokkrum tímum eftir að Sigurður Ingimundarson hætti sem þjálfari liðsins. Magnús mætti svo á æfingu daginn eftir hjá liði Keflavíkur en hann er uppalinn hjá félaginu.
„Það var margt sem spilaði inn í en þegar ég kom heim frá Danmörku var Siggi þjálfari áfram hjá Njarðvík svo ég gekk til liðsins mest megnis útaf honum. Svo þegar hann segir upp störfum fannst mér minn tími vera kominn enda var ég ekki að finna mig hjá liðinu eins og ég var búinn að gera síðustu tvö ár. Satt að segja leið mér heldur ekki voðalega vel, ég var með mín persónulegu vandamál svo það voru margar ástæður.“
Magnús er byrjaður að æfa með liði Keflavíkur eins og áður er sagt og spilar nú með sínum gömlu félögum enda ólst hann upp í Keflavíkurtreyju. „Heima er best og núna er ég að hitta gömlu félagana sem ég er búinn að spila með í 10 til 15 ár eins og Gunna Stef, Jonna og Gunna Einars en hérna líður mér best.“
Magnús verður hjá liðinu næstu þrjá mánuðina en hann hefur ekki planað lengra fram í tímann en það. „Ég veit hvað Keflavík hefur upp á að bjóða en mig langar að fara aftur til Danmerkur.“
Magnús var þekktur fyrir að setja upp gleraugu fyrir stuðningsmenn Keflavíkur þegar hann skoraði þriggja stiga körfu. „Ef stemningin er sú rétta í húsinu, nóg af fólki og trommusveitin kemur til baka koma gleraugun upp.“ sagði Magnús að lokum.
[email protected]