VefTv: Guðmundur næsti þjálfari Njarðvíkinga
Spilar líklega ekki áfram
Knattspyrnumaðurinn Guðmundur Steinarssson hefur náð samkomulagi við Njarðvíkinga um að hann taki við þjálfun liðsins sem leikur í 2. deild karla. Guðmundur var aðstoðarþjálfari Gunnars Magnúsar Jónssonar í sumar en Gunnar ákvað að segja skilið við þjálfun að sinni.
Guðmundur sagðist í samtali við Víkurfréttir vera spenntur fyrir þessari áskorun en hann bjóst ekki við að tækifærið kæmi svona snemma. „Það eru ekki allir sem fá svona tækifæri snemma á þjálfaraferlinum. Það er ekki spurt að því hvenær tækifærin koma og því er bara að stökkva á þau,“ sagði Guðmundur sem einnig lék með liðinu í sumar. Hann segist ekki vera viss um hvort hann haldi áfram á þeim vettvangi næsta tímabil, en helst vill hann láta ungu strákana um verkin á vellinum. „Skrokkurinn er í lagi og ef það þarf gamlan reynslubolta á völlinn með ungu strákunum þá er aldrei að vita hvað ég geri,“ segir Guðmundur léttur en kappinn er 34 ára gamall. Hann segist hvergi banginn við þessa áskorun, þvert á móti sé hann fullur tilhlökkunnar.
Njarðvíkingar höfðu samband við Guðmund um leið og ljóst varð að Gunnar léti af störfum. Guðmundur lofar umgjörð liðsins og hann var strax tilbúinn að taka verkefnið að sér. Aðeins er eftir að skrifa undir samning en Guðmundur segir það einungis vera formsatriði.
Njarðvíkingar og Keflvíkingar hófu samstarf síðastliðið vor og Guðmundur vonast til þess að svo verði áfram. Hann segist ánægður með samstarfið og hann viti ekki betur en að Keflvíkingar séu það líka. „Þetta ætti að nýtast báðum liðum til þess að búa til betri leikmenn. Vonandi er þetta komið til þess að vera.“ Undanfarin ár hafa verið miklar mannabreytingar hjá Njarðvíkingum á milli ára en Guðmundur vonast til þess að halda sem flestum leikmönnum frá því í ár, en hann var sérstaklega ánægður með seinni hluta tímabils hjá liðinu.
Hér að neðan má sjá viðtal við Guðmund sem tekið var eftir síðasta leik tímabilsins. Þar fer Guðmundur um víðan völl og ræðir um fyrsta tímabil sitt hjá Njarðvík.