VefTV: „Bull hjá okkur“ segir Sigurður, þjálfari UMFN
Spennandi leikur var í Iceland Express deildinni í gærkvöldi þegar Grindavík fékk Njarðvík í heimsókn en Grindavík vann þann leik 86-78, Leikurinn var frekar jafn alveg fram á loka mínútu en þá stungu Grinvíkingar af og kláruðu leikinn örugglega.
Sigurður Ingimundarson, þjálfari UMFN var ósáttur með sína menn og sagði að þeir hefðu tekið fáranlegar ákvarðanir í restina.
„Við hentum leiknum frá okkur með fáranlegum ákvörðunum hjá okkur í restina, bæði í vörn og sókn. Við vorum komnir með þetta í hendurnar en tókum afspyrnu slakar ákvarðanir. Við fylgdum ekki fyrirmælum í vörninni og hættum að gera það sem við vorum að gera vel. Þetta fór bara út í rugl, skjótandi fyrir utan og eitthvað djöfulsins bull sem við áttum ekki að gera,“ sagði Sigurður.
Hljóðið var annað í þjálfara Grindvíkinga, Helga Jónasi Guðfinnssyni, enda var hann hæst ánægður að vinna leikinn þrátt fyrir að kaninn hafi ekki komið.
„Þetta var hörku leikur og ég var ánægður með hvernig menn komu upp í lokin. En það sást vel að við vorum á tímabili án leikstjórnanda og við vorum með 15 tapaða bolta eftir þrjá leikhluta. Svo náðum við að halda því í einum í fjórða leikhluta sem ég held að hafi gert gæfu muninn,“ sagði Helgi Jónas. Hann sagði í lokin ætla að drífa sig heim og fara leita að kana.