Varnarskipið Þór kafsigldi Njarðvíkinga
Njarðvíkingar voru kafsigldir af nýliðum Þórs frá Þorlákshöfn í Iceland Express deild karla í körfubolta í kvöld. Lokatölur urðu 75-90 en botninn féll gjörsamlega úr leik Njarðvíkinga í síðari hálfleik eftir að leikurinn hafði verið jafn og spennandi í fyrri hálfleik, og heimamenn í Njarðvík voru betri aðilinn framan af.
Njarðvíkingar byrjuðu með látum og ljóst að þeir ætluðu sér að reyna að keyra á Þórsara og nota mikið af mönnum til þess að sprengja þá á limminu. Það tókst að vissu leiti í 1. leikhluta en svo fór Darrin Govens að hitna hjá Þórsurum og þeir komust aftur inn í leikinn eftir að Njarðvíkingar voru komnir með nokkuð þægilegt forskot. Staðan var þó 23- 19 fyrir heimamenn að loknum fyrsta leikhluta.
Leikurinn var hraður og spennandi og þegar hálfleiksflautan gall þá var munurinn aðeins 2 stig og allt stefndi í hörkuleik. Þegar síðari hálfleikur hófst hins vegar þá var landhelginni lokað fyri Njarðvíkinga, því varnarskipið Þór var mætt í Ljónagryfjuna. Njarðvíkingar skoruðu aðeins 11 stig í öllum 3. leikhluta og Þórsarar gengu á lagið og skoruðu körfur í öllum regnbogans litum, þar fór Govens fremstur í flokki en hann var með 29 stig í kvöld og átti frábæran leik. Vörn Þórsara small svona líka saman að Njarðvíkingar vissu ekki sitt rjúkandi ráð í sóknarleiknum. Ef að boltinn komst ekki inn á Echols þá virkuðu þeir taugaveiklaðir og töpuðu þannig mörgum boltum.
Njarðvíkingar náðu að klóra í bakkann undir lokinn en á tímabili var munurinn kominn yfir 20 stig og aðeins spurning um hversu stór sigur Þórsara yrði.
Guðmundur Jónsson stóð við stóru orðin hér á VF og pakkaði litla bróður saman, en Guðmundur var með 14 stig í leiknum ásamt 10 fráköstum og 6 stoðsendingum. Ólafur bróðir hans var nánast fjarverandi og kæmi ekki á óvart að hann fengi F í kladdann, svona miðað við það sem sést hefur frá honum það sem af er tímabili.
Cameron Echols skoraði 21 stig og var með 14 fráköst. Þá hljómar kannski undarlega að segja að hann hafi ekki leikið vel en hann misnotað töluvert af skotum sem hann á að setja ofan í, svo sterkur leikmaður er hann og því má krefjast þess. Talandi um að misnota skot, þá var Travis Holmes langt frá sínu besta og skoraði hann aðeins úr 4 af 14 skotum sínum, og oftar en ekki var hann að reyna fullmikið og dripplaði sig í vandræði. Hann var engu að síður með 13 fráköst ásamt stigunum sínum 13.
Elvar Friðriksson var með 18 stig og var hann sá eini fyri utan erlendu leikmennina sem þorði í raun að taka af skarið í sóknarleiknum, hann tók 11 af 19 þriggjastiga skotum Njarðvíkinga í kvöld.
Myndir Eyþór Sæm: Græni Drekinn var vígalegur í kvöld.