Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Varnarsigur tryggir toppsætið
Mánudagur 17. janúar 2005 kl. 23:16

Varnarsigur tryggir toppsætið

Keflvíkingar komu sér þægilega fyrir í toppsæti Intersport-deildarinnar með sigri á Snæfelli, 78-69, í Sláturhúsinu.

Keflvíkingar byrjuðu afleitlega í leiknum það sem þeir lentu snemma undir. Sóknarleikurinn brást þeim og voru Snæfellingar yfir, 16-20 eftir fyrsta leikhluta. Ekki var ástandið betra í öðrum leikhluta þar sem gestirnir juku forskot sitt og leiddu þeir með níu stigum, 30-39, í hálfleik.

Áhorfendur skemmtu sér engu að síður og mætti fjöldi Hólmara á leikinn og settu skemmtilegan svip á stúkuna. Undantekningin var þó sú að einn stuðningsmanna gestanna var eitthvað illa fyrirkallaður og veittist að trumbuslögurum Keflavíkur og reif af þeim trommukjuðana og fleygði út á gólf. Mæltist það framtak að vonum illa fyrir en allt féll í ljúfa löð að lokum.

Í seinni hálfleik var annar bragur á meisturum Keflavíkur og tóku þeir leikinn föstum tökum allt frá upphafi. Gunnar Einarsson, fyrirliði, fór fyrir sínum mönnum eftir að hafa haft hægt um sig í fyrri hálfleik og skoraði alls 13 stig í leikhlutanum.

Þá var vörnin pottþétt með Sverri Þór Sverrisson fremstan í flokki. Sverrir var eins og heftiplástur á boltamönnum Snæfells og stal fjölmörgum boltum. Snæfellingar skoruðu einungis tvær körfur utan af velli og alls 9 stig. Það dugði ekki gegn Keflvíkingum sem náðu forskotinu áður en langt um leið og virtust til alls líklegir. Staðan fyrir lokakaflann var 49-48.

Bandarísku leikmennirnir Michael Ames og Calvin Clemmons héldu gestunum inni í leiknum ásamt Hlyni Bæringssyni sem fór hamförum undir körfunum og tók alls 21 frákast. Til samanburðar tóku Keflvíkingar alls 33 fráköst í leiknum.

Keflvíkingar sigu þó framúr hægt og rólega og virtist ekki muna mikið um það að Anthony Glover væri á bekknum vegna villuvandræða hálfan leikinn. Þá átti Magnús Gunnarsson afar slakan leik og klikkaði úr öllum tíu skotum sínum utan af velli, en það kom ekki að sök því vörnin hélt vatni og innbyrtu Keflvíkingar enn einn sigurinn í Sláturhúsinu. Toppsætið er því tryggt í bili en Snæfell, Njarðvík og Fjölnir eru öll 2 stigum á eftir.

„Þetta var mjög mikilvægur sigur fyrir okkur í kvöld hvað varðar stöðuna í töflunni. Nú erum við í ökusætinu eins og Kaninn segir,“ sagði Falur Harðarson glaður í bragði í leikslok, en hann stýrði liði Keflvíkinga í fjarveru Sigurðar Ingimundarsonar í kvöld. „Það gekk illa í sókninni hjá okkur í kvöld og við virkuðum svolítið ryðgaðir en vörnin var mjög góð. Þeir skora 39 stig í fyrri hálfleik í fyrri hálfleik og 30 í þeim seinni sem er ásættanlegt. Ég er bara ánægður með að vinna leikinn.“
VF-myndir/Hilmar Bragi
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024