Varnarsigur hjá GS
Fjórðungs aukning varð í leiknum hringjum í Leirunni sumarið 2009 að því er fram kom á aðalfundi Golfklúbbs Suðurnesja í golfskálanum á þriðjudagskvöld. Sigurður Garðarsson var endurkjörinn formaður og sagði hann að varnarsigur hafi unnist á starfsárinu en rekstur klúbbsins gekk vel í erfiðu árferði og skilaði 56 þús. kr. hagnaði.
Nýr stjórn tók við hjá GS fyrir ári og var sú stefna mörkuð á fyrstu dögum hennar að vinna að viðsnúningi í fjármálum klúbbsins í upphafi kreppu. Það tókst og eru fjármál GS nú í ágætum málum en aðhalds hefur verið gætt í öllum þáttum á árinu.
Örlítil fjölgun varð í fjölda félaga á árinu og mótaþátttaka var mikil í sumar. Á fundinum var greint frá ráðningu Gunnars Jóhannssonar sem verður hefur vallarstjóri í starf framkvæmdastjóra klúbbsins og Karenar Sævarsdóttur í starf golfkennara GS. Mun hún hafa yfirumsjón með uppbyggingu á styrkingu á barna og unglingastarfi og afreksmálum klúbbsins.
Samþykkt var tillaga stjórnar um hækkun árgjalda en þau hækka að meðaltali um nærri 10% frá síðasta ári. Árgjöld hafa þó undanfarin ár ekki hækkað í samræmi við hækkun vísitölu neysluverðs.
Á fundinum var Þorbjörn Kjærbo fyrsti Íslandsmeistari karla í GS gerður að heiðursfélaga en hann átti sæti í fyrstu stjórn GS og sat þar í átta ár og fylgdi því eftir með störfum í mótanefnd klúbbsins. Þorbjörn varð Íslandsmeistari þrjú ár í röð, hann varð klúbbmeistari GS tíu sinnum, öldungameistari fjórum sinnum og lék með karla- og öldungalandsliðum Íslands á annan tug skipta. Fyrr á árinu fékk Jóhann R. Benediktsson sama heiður fyrir mikið og gott starf fyrir GS.
Yfir 500 félagar eru nú í Golfklúbbi Suðurnesja. Jóhann B. Magnússon, formaður ÍRB, Íþróttabandalags Suðurnesja, sem GS er aðili að, sagði að klúbburinn gæti verið ánægður með stöðu mála. Fjármál væru í viðunandi stöðu og margvíslegur árangur hefði náðst, t.d. í mótahaldi og eflingu barna- og unglingastarfs. Þá væri greinilega vel haldið á spilum í GS eins og sjá mætti á gegnsæjum og vel fram settum ársreikningum.
Í stjórn GS urðu litlar breytingar. Jón Ólafur Jónsson sem starfað hefur eða verið viðloðandi stjórn GS frá 1983 ákvað að gefa ekki kost á sér en við honum tók Snæbjörn Guðni Valtýsson. Aðrir í stjórn GS eru: Sigurður Garðarsson, formaður, Páll Ketilsson, varaformaður, Kjartan Már Kjartansson, gjaldkeri, Þröstur Ástþórsson, ritari, Björn V. Skúlason og Helga Sveinsdótir. Í varastjórn eru Gylfi Kristinsson, Anna María Sveinsdóttir og Einar Einarsson.
Á efstu myndinni eru heiðursfélagarnir Jóhann og Þorbjörn. Á næstu er Sigurður formaður og Jón Ólafur Jónsson og á neðstu myndinni nýir starfsmenn GS, Karen Sævarsdóttir og Gunnar Jóhannsson.