Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Varð að hoppa á tækifærið
Miðvikudagur 16. maí 2007 kl. 15:01

Varð að hoppa á tækifærið

Með gríðarmikla reynslu á bakinu sem leikmaður tekur Teitur Örlygsson nú við körfuknattleiksliði Njarðvíkur og er þetta í fyrsta sinn sem hann verður aðalþjálfari liðsins upp á eigin spýtur. Teitur þjálfaði Njarðvíkinga ásamt Friðriki Ragnarssyni leiktíðina 2001 en þá var hann einnig leikmaður. Í gegnum tíðina hafa mörg gylliboðin borist inn á borð hjá Teit en hann hafnaði þeim öllum, uns þjálfunarstaða var á lausu hjá liðinu sem hann tók þátt í að gera að stórveldi.

 

,,Það hafa margir haft samband í gegnum tíðina og sem dæmi má nefna var ég nærri því búinn að taka við ÍR á síðustu leiktíð en hætti svo við aðallega út af vinnunni og tímanum sem hefði farið í það að keyra á milli. Njarðvík datt svo upp í hendurnar á mér fyrir skemmstu og ég varð að hoppa á tækifærið og gefa þessu séns,” sagði Teitur í samtali við Víkurfréttir.

 

Teitur er ekki mikið menntaður í þjálfunarfræðunum en sem leikmaður komast fáir með tærnar þar sem Teitur hefur hælana. ,,Ég hef verið hjá fullt af góðum þjálfurum í Njarðvík í gegnum tíðina og í útlöndum en ég byggi mína þjálfun á leikreynslu en þarf að skerpa á mér og sem dæmi má nefna höfum ég og Friðrik Ragnarsson verð að leita okkur að þjálfaranámskeiðum til að bæta við okkur.”

 

Margir velta því fyrir sér hvað Teitur hafi Njarðvíkurliðinu að bjóða sem þjálfari og segir hann að áfram verði lögð áhersla á grimman varnarleik. ,,Ég vil að Njarðvíkurliðið verði hraðari en það hefur verið síðustu ár og ég mun leggja áherslu á það að auka hraða liðsins. Menn hafa alltaf gott af því að fá nýjan þjálfara og nýjar áherslur inn í starfið. Ég verð með aðstoðarmann á næstu leiktíð en það ræðst bráðlega hver það verður,” sagði Teitur. Þegar hefur skarð myndast í leikmannahóp Njarðvíkinga þar sem Igor Beljanski samdi við Grindavík en þeir Brenton, Friðrik Stefánsson og Jóhann Árni hafa allir endurnýjað samninga sína við félagið. ,,Það er spennandi kjarni í Njarðvíkurliðinu og er næsta skref að finna kana við hæfi, sú vinna fer í gang innan skamms.”

 

Teitur segir ennfremur að grannaliðin Grindavík og Keflavík séu á tánum fyrir næstu leiktíð og bætir því við að Suðurnesjaliðin séu ekki sátt við árangur síðasta veturs og ætli sér miklu mun meira á næstu leiktíð. ,,Það eru allir að styrkja sig og það sést að Grindvíkngar verða með hörkulið á næstu leiktíð,” sagði Teitur en leikmannamál Njarðvíkurliðsins skýrast væntanlega á næstu vikum.

 

Sjálfur var Teitur þekktur fyrir áræðni inni á vellinum og oft sáust lygileg skot langt utan af velli detta niður úr höndum leikmanns nr. 11. Verður mönnum kippt á bekkinn ef þeir ætla að apa eftir ærslafullan leikstíl nýja þjálfarans?

,,Ég mun ekki hafa þolinmæði fyrir mörgum jafn vitlausum skotum og ég átti það til að taka en ég mun ekki stoppa menn af því ég vil hafa þá æsta inni á vellinum og vil frekar þurfa að róa þá niður heldur en að æsa þá upp. Við viljum skora meira af þessum ódýru stigum og það er óneitanlega skemmtilegra að spila og horfa á sóknarbolta.”

 

[email protected]

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024