Varamaðurinn Jóhann Magni stal tveimur stigum af Víði
Reynir og Víðir skildu jöfn í 2. deild karla í kvöld er liðin mættust í fyrsta sinn í áratug á Íslandsmótinu í knattspyrnu. Knútur Rúnar Jónsson fyrirliði Víðis kom sínum mönnum í 1-0 í upphafi fyrri hálfleiks en varamaðurinn Jóhann Magni Jóhannsson reyndist hetja heimamanna er hann gerði jöfnunarmark leiksins í viðbótartíma. Lokatölur voru því 1-1 en strekkingsvindur var á Sparisjóðsvellinum í Sandgerði í kvöld og jafnan hafði það lið yfirhöndina sem sótti með vindinum.
Heimamenn í Reyni hófu leikinn á því að sækja með vindinum og áttu gestirnir í vök að verjast. Strax á 6. mínútu kom fyrirgjöf af vinstri kanti inn í markteig Víðis sem Stefán Örn Arnarson skallaði rétt framhjá markinu.
Þegar líða tók á fyrri hálfleikinn komust gestirnir meira inn í leikinn en Reynismenn voru töluvert meira ógnandi og sóttu mikið upp vinstri kantinn. Á 27. mínútu fékk Stefán Örn annað ákjósanlegt færi fyrir Reyni er hann óð inn í teig vinstra megin og lét vaða á markið með bogabolta sem missti marks.
Á 40. mínútu leiksins vildu heimamenn fá víti þegar boltinn barst í hendi eins varnarmanns Víðis en Kristinn Jakobsson sá ekkert athugavert og lét leikinn halda áfram. Síðasta færi fyrri hálfleiks áttu gestirnir úr Garðinum þegar fyrirgjöf kom af hægri kanti í átt að marki Reynis. Boltinn barst út á vinstri kant þar sem Björn Bergmann Vilhjálmsson tók við knettinum, lék á einn varnarmann Reynis og skaut að marki en Helgi Már Helgason var vel á verði í Reynismarkinu og varði skotið og staðan því 0-0 í hálfleik.
Það dró snemma til tíðinda í síðari hálfleik þegar Víðismenn sóttu með vindinum. Björn Bergmann fékk boltann í teignum og náði að renna honum fyrir fætur fyrirliðans og Knútur Rúnar lét ekki á sér standa heldur sendi boltann í netið á 52. mínútu og kom Víði í 0-1 og ljóst að róðurinn yrði þungur eftir þetta fyrir Reyni sem sóttu gegn sterkum vindinum.
Aðeins 8 mínútum síðar átti Marteinn Guðjónsson góða sendingu fram völlinn á Stefán Örn í framlínunni sem stakk af varnarmenn Víðis og var kominn einn gegn markverði þegar hann lét skotið vaða. Rúnar Dór Daníelsson hafði þó betur gegn Stefáni í Víðismarkinu og varði skotið með glæsilegum tilþrifum.
Á 80. mínútu átti Slavisa Mitic kost á því að gera út um leikinn fyrir Víði þegar boltinn barst til hans í teignum. Mitic skaut af stuttu færi beint í fangið á Helga í Reynismarkinu og fór Mitic þarna illa með ákjósanlegt færi.
Gulu spjöldin létu ekki á sér standa í leiknum enda lítil ást millum þessara erkióvina. Kristinn Jakobsson lyfti því gula alls 10 sinnum og margir voru tæpir á því að vinna sér inn rautt spjald.
Tæpum fjórum mínútum var bætt við venjulegan leiktíma og það þáðu heimamenn með þökkum. Hjörtur Fjeldsted tók hornspyrnu fyrir Reyni á 93. mínútu og var boltinn góður inn í teig þar sem hann rataði fyrir fætur Jóhanns Magna sem dúndraði boltanum í netið og jafnaði leikinn. Sekúndum síðar flautaði Kristinn til leiksloka og vonbrigðin leyndu sér ekki í andlitum Víðismanna sem hefðu vel getað gert tvö mörk í síðari hálfleik en niðurstaðan var 1-1 jafntefli.
Eftir leiki kvöldsins eru Reynismenn í 3. sæti deildarinnar með 4 stig en Víðismenn eru í 5. sæti með 2 stig.
Byrjunarlið Reynis í kvöld;
Helgi Már Helgason, markvörður, Aron Örn Reynisson, Hafsteinn Þór Friðriksson, Garðar Eðvaldsson, Darko Milojkovic, Marteinn Guðjónsson, Stefán Örn Arnarson, Anton Ingi Sigurðsson, Hjörtur Fjeldsted, Guðmundur Gísli Gunnarsson og Ólafur Ívar Jónsson.
Byrjunarlið Víðis í kvöld:
Rúnar Dór Daníelsson, markvörður, Knútur Rúnar Jónsson, Slavisa Mitic, Nebojsa Stankovic, Bojan Djordjevic, Georg Kristinn Sigurðsson, Haraldur Axel Einarsson, Atli Rúnar Hólmbergsson, Einar Daníelsson, Björn Bergmann Vilhjálmsson og Hörður Ingi Hreiðarsson.
VF-Myndir/ [email protected]