Karlakórinn
Karlakórinn

Íþróttir

Var svolítið stressuð fyrst
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
laugardaginn 24. febrúar 2024 kl. 06:00

Var svolítið stressuð fyrst

– segir Hulda María Agnarsdóttir sem hefur vakið mikla eftirtekt með körfuboltaliði Njarðvíkur í Subway-deild kvenna í vetur en þessi gallharði Njarðvíkingur er aðeins fimmtán ára gömul og þegar farin að leika stórt hlutverk í efstu deild. Víkurfréttir settust niður með þessari efnilegu körfuboltakonu og spjölluðu við hana um körfubolta – enda kemst fátt annað að hjá henni.

Hulda María (l.t.v.) var ekki há í loftinu þegar hún byrjaði í körfubolta.

Hulda María byrjaði mjög snemma í körfubolta, aðeins fjögurra ára gömul. „Svo hætti ég í smá tíma og fór í fimleika, allar vinkonur mínar voru í fimleikum og þá vildi ég líka fara – en ég byrjaði aftur í körfubolta í lok árs 2020.“

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Þú ert í tíunda bekk, ertu búin að ákveða hvað þú ætlar að gera eftir grunnskóla?

„Ég held að ég fari bara í FS,“ segir Hulda en hún hefur mikinn áhuga á innanhússarkitektúr og stefnir á nám í Bandaríkjunum að loknum framhaldsskóla.

„Síðan ég var mjög ung hefur mig langað að verða innanhússarkitekt og nokkrir skólar sem eru að kenna innanhússarkitektúr hafa haft samband. Ég er komin með umboðsmann fyrir háskólakörfuboltann og það eru margir stórir skólar búnir að hafa samband.“

Hvernig finnst þér að stíga inn í meistaraflokk aðeins fimmtán ára gömul? Þú ert búin að eiga alveg frábært tímabil.

„Mjög gaman, mjög skemmtilegar stelpur. Þetta getur verið svolítið stressandi að spila með þeim en ég reyni að vera ekki stressuð.“

Hvernig var þá að spila fyrsta leikinn?

„Fyrst var ég mjög stressuð en svo hef ég vanist þessu og finnst mjög gaman.“

Hulda María hefur vakið athygli enda má segja að þessi unga og efnilega körfuknattleikskona hafi stigið verulega upp eftir því sem líður á tímabilið.

Hvað ætlar þú að ná langt í körfuboltanum?

„Eins langt og hægt er, eða lengra.“

Hulda með fjölskyldunni sinni.

Er Njarðvíkingur í húð og hár

Hulda er mikill Njarðvíkingur og komin af góðu fólki. Pabbi hennar er Agnar Mar Gunnarsson, helsta áróðursmaskína Njarðvíkur, og körfuboltahæfileikana hefur hún sennilega erft frá mömmu sinni, Svövu Ósk Stefánsdóttur, en hún er margfaldur Íslands- og bikarmeistari með Keflavík og lék fimmtán leiki með A-landsliði kvenna í körfuknattleik.

Hefur þá aldrei komið til greina að spila með Keflavík?

Hulda er ekki lengi að svara þessu: „Nei, aldrei! Ég er græn í gegn.“

Hvernig líst þér á tímabilið núna, hvernig heldurðu að þetta endi?

„Vonandi förum við alla leið og verðum Íslandsmeistarar, svo ætlum við líka að verða bikarmeistarar. Bara reyna að vinna allt. Þetta er mjög spennandi núna, sérstaklega á milli Suðurnesjaliðanna.“

Hvað gerir Hulda í frítímanum?

„Mér finnst gaman að hitta vinkonur mínar, læra og er mikið í símanum,“ segir hún og hlær.

Ertu góður námsmaður?

„Já, ég myndi segja það. Annars snýst frítíminn hjá mér bara um körfubolta; það eru styrktaræfingar, morgunæfingar o.s.frv.“

Þegar viðtalið fór fram var frídagur í skólanum hjá Huldu Maríu og hún notaði tímann vel, fór á morgunæfingu og svo var landsliðs-æfing hjá henni seinni partinn en Hulda er í úrtaki fyrir U16 landslið Íslands.

„Ég var í U15 í fyrra og þá fórum við til Finnlands og spiluðum þrjá æfingaleiki á móti Finnlandi. Núna eru síðustu æfingarnar í úrtakshópi U16 áður en það verður valið í lokahópinn. Ef ég kemst í hópinn þá förum við til Finnlands að keppa á Norðurlandamóti í byrjun júlí, svo förum við á EM í Tyrklandi um miðjan ágúst.“

Hulda María að sulla niður þristi.

Þú ert hógvær að segja; „ef ég verð valin“, er það nokkur spurning?

„Kannski – en ég vil ekki segja það, alla vega ekki strax.“

Eru fleiri Njarðvíkingar í úrtakshópnum með þér?

„Já, við erum fimm af 25 manna hópi. Það er ég, Sara [Björk Logadóttir], Kristín [Björk Guðjónsdóttir], Hólmfríður Eyja [Jónsdóttir] og Ásta María Arnardóttir en við erum búnar að spila saman í gegnum alla flokkana.“

Hverjar eru nú þínar helstu vinkonur í liðinu?

„Það er Sara, Kristín og Eyja – við erum alltaf saman.“

En hver er besta körfuboltakona sem þú hefur spilað með?

„Það er Emilie Hesseldal – og Selena Lott, þær eru frábærar,“ segir þessi frábæra körfuboltakona að lokum en hún verður ábyggilega ekkert síðri en þær þegar fram líða stundir.