Var pirruð yfir því að vera á bekknum
Fjórtán ára skoraði fjögur mörk á 15 mínútum í bikarleik
„Ég var bara pirruð yfir því að vera á bekknum og langaði að láta þjálfarann vita af mér,“ segir Sveindís Jane Jónsdóttir og hlær þegar blaðamaður hittir hana á æfingasvæði Keflvíkinga í vikunni. Hin 14 ára gamla Sveindís komst heldur betur í sviðsljósið eftir að hún skoraði fjögur mörk á 15 mínútum í bikarleik Keflavíkur og Álftaness um liðna helgi. Hún kom þá inn á sem varamaður og gjörbreytti spennandi leik í stórsigur Keflvíkinga. Staðan var 1-1 þegar hún kemur inn á völlinn en það tók hana einungis sex mínútur að skora þrennu. Hún bætti fjórða markinu við skömmu síðar og lagði upp síðasta markið í 1-6 sigri Keflvíkinga.
„Ég er mjög spennt fyrir sumrinu og er virkilega ánægð með okkar hóp og þjálfarann. Okkur gekk ekkert svakalega vel í fyrra en ég held að það breytist í sumar. Við erum með ungt lið en mér finnst við mjög góðar. Að mínu mati erum við búnar að bæta okkur mikið frá því í fyrra,“ segir Sveindís sem hefur nú skorað eitt mark í deildinni og svo þessi fjögur í bikarnum.
Sveindís Jane byrjaði að æfa með meistaraflokki Keflvíkinga í fyrra. Hún var að klára níunda bekk og á því ár eftir í grunnskóla. Hún hefur ýmist leikið sem kantmaður eða framherji. Nú er hún einungis frammi og raðar inn mörkunum. Á undirbúningstímabilinu hefur hún verið iðin við kolann og skorað grimmt. Í yngri flokkum hefur hún einnig verið dugleg við að skora mörkin. Sveindís horfir mikið á fótbolta og hefur brennandi áhuga. Hún fylgist vel með landsliðinu og lítur mikið upp til leikmanna eins og Margrétar Láru og Söru Bjarkar sem hafa gert það gott með landsliðinu og sem atvinnumenn. Hún ætlar sér að horfa á Ísland á EM karla í sumar og býst við skemmtilegri keppni.
Vil skora í hverjum leik og stefnir á A-landsliðið
„Mig langar bara að komast í A-landsliðið. Það er helsta markmiðið,“ segir Sveindís sem hefur þegar fengið forsmekkinn af því að spila fyrir Íslands hönd. Hún var yngsti leikmaðurinn sem fór með U17 ára landsliðinu til Finnlands um daginn. Þar lék hún í þremur leikjum og skoraði eitt mark gegn Rússum.
Eins og sönnum framherja sæmir þá ætlar Sveindís sér auðvitað að skora sem mest í sumar. „Markmiðið er auðvitað að skora í hverjum einasta leik og vera sem mest í byrjunarliðinu. Ég ætla að standa mig bara eins vel og ég get,“ segir hin marksækna Sveindís. Hún æfir mikið og sjálf fer hún oft í fótbolta og æfir sig á milli æfinga. Eins á hún það til að mæta snemma á æfingar þar sem hún vinnur í ákveðnum hlutum til þess að bæta sig sem leikmann. „Það er eina sem virkar, að æfa sig mikið og vel,“ segir Sveindís að lokum.