Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Vantaði baráttuanda í liðið
Föstudagur 25. ágúst 2006 kl. 11:26

Vantaði baráttuanda í liðið

Keflvíkingar misstu annað sætið úr greipum sér í gærkvöldi þegar þeir lágu 1-0 gegn ÍA á Akranesi í Landsbankdadeildinni. Hafþór Ægir Vilhjálmsson gerði eina mark leiksins á 29. mínútu. KR-ingar höfðu góðan 2-0 sigur á ÍBV í gærkvöldi og tóku þar með annað sætið af Keflvíkingum. Þetta var fyrsti tapleikur Keflavíkur í Landsbankadeildinni síðan 12. júní er þeir töpuðu 2-1 gegn Fylki í Árbænum.

Þórður Guðjónsson sendi boltann fyrir Keflavíkurmarkið á 29. mínútu þar sem bróðir hans Bjarni Guðjónsson skallaði að marki. Ómar Jóhannsson varði skallann vel en Hafþór Ægir fylgdi á eftir og gerði fyrsta og eina mark leiksins.

„Við fengum varla færi í leiknum,“ sagði Guðjón Árni Antoníusson, hægri bakvörður Keflavíkur, í samtali við Víkurfréttir. „Það vantaði allan baráttuanda í liðið og maður hefði haldið að sigurinn gegn FH myndi blása í okkur lífi en við töpuðum þess í stað aftur gegn ÍA í deildinni,“ sagði Guðjón.

Næsti leikur Keflavíkur er á mánudag kl. 20:00 þegar þeir mæta Víkingum í undanúrslitum VISA bikarkeppninar á Laugardalsvelli. „Þetta er allt önnur keppni og þar eru engin stig í boði, bara úrslitaleikurinn,“ sagði Guðjón en Keflavík og Víkingur hafa þegar mæst tvívegis í deildinni í sumar. Í fyrri leiknum sem fram fór í Keflavík skoraði Stefán Örn Arnarson eftirminnilegt sigurmark á lokasekúndum leiksins en liðin skildu síðan jöfn í Víkinnni 1-1.

 

VF-mynd/ Guðjón í leik gegn Grindvíkingum í júlí sl.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024