Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

„Vanmátum HK“
Miðvikudagur 6. júlí 2005 kl. 13:32

„Vanmátum HK“

Keflvíkingar máttu bíta í það súra epli í gær að tapa 1-0 gegn 1. deildar liði HK í 16-liða úrslitum VISA-bikarkeppni karla í knattspyrnu. Það er því ljóst að VISA-bikarinn er á leið frá Suðurnesjum þetta árið.

Í fyrri hálfleik voru Keflvíkingar meira með boltann en voru ekki að skapa sér afgerandi færi. Hið sama er hægt að segja um HK og var fyrri hálfleikur leiksins fremur bragðdaufur.

Í síðari hálfleik komu heimamenn grimmir til leiks og voru mun meira ógnandi. Eftir að HK hafði gert harða atlögu að marki Keflvíkinga bjargaði Branislav Milicevic boltanum á marklínu fyrir Keflavík en það dugði ekki til. Einungis fimm mínútum seinna skoraði Ólafur Júlíusson með skalla eftir góða fyrirgjöf og staðan því 1-0 HK í vil.

Eftir mark heimamann náðu Keflvíkingar sér lengi vel ekki á strik þar sem HK-menn lögðust í vörn en þegar um 10 mínútur voru til leiksloka þá vöknuðu Keflvíkingar af værum blundi og voru óheppnir að jafna leikinn ekki undir lokin en þeir fengu nokkur ágætis tækifæri til þess. HK-menn héldu því fengnum hlut og sigruðu 1-0 og eru því komnir í 8 – liða úrslit og hafa hefnt ófaranna gegn Keflavík frá því í bikarkeppninni í fyrra.

„Við vanmátum HK í leiknum í gær og við fórum aldrei í gang og spiluðum mjög hægt,“ sagði Kristján Guðmundsson, þjálfari Keflavíkur, í samtali við Víkurfréttir í dag. „Völlurinn var lélegur en það er engin afsökun, mark var dæmt af okkur og það er heldur engin afsökun. Sendingarnar okkar voru áberandi lélegar og leikmenn óöryggir með boltann og loks þegar menn fóru að gefa boltann frá sér þá rataði hann ekki á samherja. Leikurinn í gær var ólíkur öllu öðru sem við höfum verið að gera í sumar,“ sagði Kristján að lokum.

VF-mynd/ Eygló Eyjólfsdóttir: Keflvíkingar sækja að marki HK en árangurslaust.




Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024