Vandræðagangur í vörninni varð Þrótti að falli
Þrótti og Grindavík gengur hreint bölvanlega í Lengjudeild karla í knattspyrnu en bæði lið töpuðu sínum leikjum í gær með minnsta mun. Þróttur tapaði fyrir Gróttu með einu marki gegn engu en mark Gróttu má kalla gjöf frá vörn Þróttar, þá áttust Fjölnir og Grindavík við í fjörugum leik þar sem sjö mörk voru skoruð og Fjölnir tók öll stigin.
Útlitið er orðið ansi dökkt hjá Þrótturum sem sitja á botni deildarinnar og fá merki eru uppi um að þeir eigi eftir að forða sér frá falli. Þróttur vermir neðsta sæti Lengjudeildar með sex stig, fjórtán stigum á eftir Grindavík sem er í þriðja neðsta sæti, KV er næstneðst með ellefu stig.
Kannski það hafi verið viðbúið að Þróttur myndi eiga í erfiðleikum í næstefstu deild, enda í fyrsta sinn sem liðið leikur þar, en gengi Grindvíkinga kemur á óvart. Það er deginum ljósara að Grindvíkingar stefndu á að blanda sér í toppbaráttuna í upphafi móts en eins og staðan er núna eru Grindvíkingar í sætinu fyrir ofan fallsvæðið. Þróttarar unnu sinn fyrsta sigur í næstefstu deild þegar þeir lögðu Grindavík í tólftu umferð og við tapið er eins og sjálfstraust Grindvíkinga hafi fokið út um gluggann. Eftir ellefu umferðir var Grindavík komið með sautján stig en nú eru þeir með tuttugu stig, þrjú stig í síðustu sex umferðum. Grindvíkingar hafa tapað öllum sínum leikjum, að undanskildum sigurleik gegn Kórdrengjum í sextándu umferð, eftir tapið fyrir Þrótti.
Fjölnir - Grindavík 4:3
Leikur Fjölnis og Grindavíkur byrjaði með þvílíkum látum. Kenan Turudija kom Grindavík yfir á áttundu mínútu og Aron Jóhannsson tvöfaldaði forystuna mínútu síðar en Fjölnir minnkaði muninn á þeirri elleftu, þrjú mörk á fjögurra mínútna kafla. Fjölnismenn jöfnuðu leikinn í fyrri hálfleik (31') og því jafnt í hálfleik.
Kristófer Viðar Pálsson kom Grindavík aftur í forystu (59') en hann hafði komið inn á sem varamaður í fyrri hálfleik. En Adam var ekki lengi í Paradís og skömmu síðar svaraði Fjölnir með tveimur mörkum (66' og 69'), Grindvíkingar lögðu allt í sölurnar til að jafna og var Turudija nálægt því en markvörður Fjölnis bjargaði þá með glæsilegri vörslu. Fjölnismenn héldu út þrátt fyrir aukinn þunga í sókn Grindvíkinga og lauk leiknum 4:3.
Mörk Grindavíkur: Kenan Turudija (7'), Aron Jóhannsson (8') og Kristófer Páll Viðarson (59').
Þróttur - Grótta 0:1
Þróttarar sýndu ágætis leik í gær en það er eins og einhver álög séu á þeim og enn einn leikurinn fellur með andstæðingunum. Aðeins eitt mark var skorað (29') og að það má kalla það gjöf Þróttar, þá voru varnarmenn Þróttar að vandræðast með boltann í öftustu línu, létu hann ganga sín á milli en þegar sóknarmaður Gróttu setti pressu á þá fékk hann boltann í sig og þaðan í markið.
Þetta reyndust dýrkeypt mistök og markið það eina sem skildi liðin að á endanum.