Valur tók fyrsta leikinn
Fyrsta viðureign Keflavíkur og Vals um Íslandsmeistaratitilinn í körfuknattleik kvenna fór fram í Blue-höllinni í gær. Eftir hörkuleik sigu gestirnir fram úr Keflvíkingum og höfðu að lokum þriggja stiga sigur, 66:69.
Fyrsti leikhluti var jafn og augljóst að taugarnar voru þandar til hins ítrasta hjá leikmönnum, mikið um mistök á báða bóga. Það voru Keflvíkingar sem fóru fyrr í gang og náðu að byggja upp ágætis forystu áður en blásið var til hálfleiks, staðan 36:29.
Keflavík hélt áfram að auka forystuna í þeim þriðja og náðu mest þrettáns stiga forystu (47:34) í þriðja leikhluta en þá tók við frostakafli og hvorki gekk né rak hjá liðinu. Valur vann sig inn í leikinn með hörkuvörn og Keflvíkingar fóru að reyna ótímabær skot úr erfiðum færum.
Snemma í fjórða leikhluta náðu gestirnir að jafna leikinn og komast yfir (56:54), eftir það var allt í járnum og sigurinn hefði getað lent hvoru megin en það voru Valskonur sem höfðu að lokum sigur og leiða því einvígið 1:0.
Keflavík - Valur 66:69
(13:12, 23:17, 18:22, 12:18)
Keflavík: Daniela Wallen Morillo 17/14 fráköst/6 stoðsendingar, Birna Valgerður Benónýsdóttir 15/7 fráköst, Karina Denislavova Konstantinova 14/6 fráköst, Anna Ingunn Svansdóttir 10, Katla Rún Garðarsdóttir 8, Eygló Kristín Óskarsdóttir 2, Agnes María Svansdóttir 0, Anna Þrúður Auðunsdóttir 0, Anna Lára Vignisdóttir 0/4 fráköst, Ólöf Rún Óladóttir 0, Hjördís Lilja Traustadóttir 0, Emelía Ósk Gunnarsdóttir 0.
Jóhann Páll Kristbjörnsson, ljósmyndari Víkurfrétta, var á leiknum og má sjá myndasafn frá honum neðst á síðunni auk viðtals við Hörð Axel eftir leik.