Valur Orri: Með harðari leikjum sem ég hef leikið
Það var boðið upp á alvöru átakaleik í Toyotahöllinni síðastliðið sunnudagskvöld. Keflavík knúði fram oddaleik í rimmu þessara liða með góðum heimasigri Keflavíkur 100-87. Leikurinn fer í sögubækurnar fyrir átök í leiknum en Jovan Zdravevski var vísað úr húsi fyrir að slá til Magnúsar Þórs Gunnarssonar, fyrirliða Keflavíkur. Valur Orri Valsson, leikstjórnandi Keflavíkur, er ákaflega ánægður með sigurinn og er bjartsýnn á að Keflvíkingar komist í undanúrslit.
„Þetta var slagsmálaleikur og líklega með harðari leikjum sem ég hef leikið í. Þetta var frábær sigur hjá okkur og við fengum framlag frá öllum leikmönnum. Michael Craion meiddist snemma en þá stigu menn upp og við áttum þennan sigur svo sannarlega skilinn,“ segir Valur Orri. Hann telur að góður undirbúningur fyrir leikinn hafi haft sitt að segja.
„Það er ennþá mars og allt of snemmt að fara í sumarfrí. Við gíruðum okkur mjög vel upp fyrir þennan leik. Við leikmennirnir fórum í alla grunnskóla í Keflavík og kynntum leikinn. Það var frábær mæting á sunnudag og langt síðan það hefur verið svona gaman að spila körfuboltaleik. Við teljum okkur eiga góðan möguleika á að vinna Stjörnuna. Það hefur verið talað um það að þeir séu með betri breidd en við og það er kannski rétt. Við erum hins vegar með mjög gott byrjunarlið og ef við fáum sama framlag frá bekknum og í síðasta leik þá er ég mjög bjartsýnn.“
Valur Orri hefur verið sakaður um leikaraskap þegar hann féll við eftir viðskipti við Fannar Helgason. „Það sást kannski ekki mjög vel á myndum frá þessu en hann slær í magann á mér. Dómarar hafa tekið mjög hart á þessu og ég er alls ekki sammála að þetta hafi verið leikaraskapur. Ég sá ekki atvikið milli Jovan og Magnúsar. Hann var búinn að vera að böggast í okkur í fyrri leiknum og eðlilegt að það hitni aðeins á mönnum. Fólk vill hörku og læti. Ætli þetta verði ekki stríð í oddaleiknum.“