Valur kominn í þjálfaragír aftur
Valur Ingimunarson er kominn á þjálfaramarkaðinn á nýjan leik eftir að hafa verið í burtu eina keppnistíð. „Ég er klár í slaginn, betri og hressari en nokkru sinni,“ sagði Valur í samtali við VF í dag.
Valur hætti sem kunnugt er með þjálfun Njarðvíkurliðsins í fyrra og bróðir hans, Sigurður, tók við liðinu. Valur átti við veikindi að stríða en fór ekki hátt með það. Komst eftir viðtöl við lækna og rannsóknir í endurhæfingu á lungnadeild Reykjalundar um áramótin og er að ljúka þar núna sex vikna prógrammi. Þar hefur hann verið ásamt öðrum kunnum íþróttamanni frá Suðurnesjum, Grétari Einarssyni, sem fékk hjartaáfall 30. des. sl. Grétar er eins og nýr maður og er í viðtali í prentútgáfu VF í þessari viku.
„Ég var búinn að eiga við veikindi í ellefu ár en náði samt að þjálfa. Síðustu árin voru erfiðari og þegar ég tók við Njarðvíkurliðinu 2008, þá var það meira af skyldurækni en of mikilli getu. Mér hefur gengið mjög vel í endurhæfingunni og er orðinn eins og nýr maður. Þetta er búinn að vera frábær tími á Reykjalundi og þar er unnið mjög gott starf. Nú er í ég kominn í góðan gír og langar aftur í körfuboltaþjálfun, tilbúnari en nokkru sinni fyrr“, sagði Valur en hann lék í 11 ár með UMFN sem og að þjálfa liðið í nokkur ár. Svo var hann í mörg ár í Borgarnesi við góðan orðstý.
Eins og fram hefur komið í fréttum hefur Friðrik Ragnarsson, sem þjálfaði UMFG undanfarin ár hætt með liðið en gaf það út að hann hefði áhuga á að þjálfa áfram.
Á efri myndinni er Valur með Jóni Júlíusi Árnasyni við undirritun samnings um þjálfun UMFN vorið 2008.