Valur Ingimundarson samdi við Njarðvíkinga í dag
Valur Ingimundarson og Jón Júlíus Árnason formaður Körfuknattleiksdeildar UMFN undirrituðu í dag samning þess efnis að Valur taki við Njarðvíkingum í Iceland Express deild karla. Valur gerði opinn samning við Njarðvíkinga en hann mun á næstunni flytjast búferlum úr Borgarnesi til Reykjanesbæjar. Óhætt er að segja að Valur sé kominn heim en hann lék í 11 ár með Njarðvík ásamt því að þjálfa liðið. Hann þjálfaði síðast lið Njarðvíkur árið 1995.
,,Ég fann mjög margar ástæður til þess að byrja ekki aftur að þjálfa og voðalega fáar til þess að byrja aftur en samt er ég nú byrjaður að nýju og ætli það sé ekki bara bakterían og gamla félagið. Þegar Njarðvíkingar leituðu til mín gat ég ekki skorast undan því að taka við þeim,” sagði Valur í samtali við Víkurfréttir.
,,Markmiðið er að gera mitt besta í Njarðvík og koma liðinu aftur á skrið, það er svo sem ekkert búið að vera slæmt lið þarna en ég kem fullur bjartsýni inn í starfið og geri mitt allra besta. Ætli mitt fyrsta verkefni verði ekki að setja mig inn í málin og sjá hvað er í gangi hjá félaginu, svo mun eitt væntanlega leiða af öðru. Það er alltaf gott að fá að koma aftur og það eru stóru verðlaunin í íþróttum,” sagði Valur Ingimundarson nýráðinn þjálfari Njarðvíkinga.
Vals bíður ærinn starfi í Ljónagryfjunni enda hefur Brenton Birmingham gengið í raðir Grindavíkur, Damon Bailey hefur átt í viðræðum við gula um að leika með þeim næsta vetur og Guðmundur Jónsson er genginn í raðir Þórs á Akureyri. Það er því nokkuð um breytingar í Ljónagryfjunni og verður fróðlegt að sjá hvernig Valur mun taka á málunum.
VF-Mynd/ Stefán Þór Borgþórsson – Valur Ingimundarson og Jón Júlíus Árnason við undirritun samningsins í dag.