Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Valssigur í Njarðvík
Mánudagur 9. ágúst 2004 kl. 23:23

Valssigur í Njarðvík

Valsmenn komu til Njarðvíkur í kvöld og sigruðu heimamenn 0-3. Valur trjónir nú á toppi 1. deildar með 25 stig þar sem HK tapaði 4-1 fyrir Haukum á Ásvöllum í kvöld.

Frábærar aðstæður voru til knattspyrnuiðkunar á Njarðvíkurvelli og áhorfendafjöldinn hljóp á öðru hundraðinu. Njarðvíkingar byrjuðu betur en Valsmenn náðu hægt og stígandi að komast inn í leikinn.

Mikil harka var í leiknum og á 22. mínútu var Sigurbirni Hreiðarssyni vikið af leikvelli fyrir brot á Gunnari Sveinssyni í Njarðvíkurliðinu. Sigurbjörn hafði áður fengið gult spjald og Einar Örn Daníelsson, dómari leiksins, því knúinn til þess að senda Sigurbjörn í sturtu. Einum manni færri gáfu Valsmenn ekki þumlung eftir og á 36. mínútu áttu þeir aukaspyrnu rétt fyrir utan hægra vítateigshorn Njarðvíkur, spyrnuna tók Baldvin Hallgrímsson og skoraði hann fínt mark með föstu skoti sem Friðrik Árnason, markvörður Njarðvíkinga, náði ekki til. Njarðvík 0-1 Valur.

Einum manni fleiri og einu marki undir urðu Njarðvíkingar fyrir öðru áfalli einungis mínútu eftir mark Valsmanna. Þeir Jón Fannar Guðmundsson og Garðar Gunnlaugsson hlupu saman með þeim afleiðingum að Garðar þurfti að fara meiddur af leikvelli og Jón Fannar fékk að líta sitt annað gula spjald og sá rautt í kjölfarið. Jafnt í liðum á ný en fleiri urðu mörkin ekki í fyrri hálfleik.

Gestirnir komu beittir til seinni hálfleiks en það voru Njarðvíkingar sem áttu fyrsta hættulega færið þegar Eyþór Guðnason sendi þrumufleyg í átt að Valsmarkinu sem endaði í þverslánni.

Það var Hálfdán Gíslason sem kom Val í 0-2 með marki á 57. mínútu og Hálfdán var aftur á ferðinni á 70. mínútu og skoraði þá þriðja og síðasta mark leiksins eftir að knötturinn hafði borist til hans inn í teig. Hálfdán gerði vel í að taka á móti boltanum og sendi hann örugglega í hægra hornið framhjá markverði Njarðvíkur. Lokatölur leiksins því 0-3 Valsmönnum í vil.

Helgi Bogason, þjálfari Njarðvíkurliðsins, var skiljanlega ósáttur í leikslok.
„Það eru ekki alltaf jólin í þessum bransa, við vorum einum manni fleiri og leikurinn blasti við okkur þegar markið kemur. Svo augnabliki síðar erum við búnir að missa mann út af. Við verðum bara að bíta í skjaldarrendur og fara að skora meira. Maður þarf stundum að snúa heppninni sér í vil og hætta að bíða eftir því að það gerist sjálfkrafa. Ég hef fulla trú á því Valsmenn fari upp í sumar, svo er ómögulegt að segja hverjir fari með þeim, það getur nánast verið hvaða lið sem er í deildinni“, sagði Helgi í samtali við Víkurfréttir í kvöld.

Næsti leikur Njarðvíkinga er þann 13. ágúst á móti HK á Kópavogsvelli kl. 19.00.  

VF-mynd/ úr safni

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024