Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Íþróttir

Valsmenn kláruðu Keflavík á hálftíma
Sunnudagur 26. ágúst 2007 kl. 21:46

Valsmenn kláruðu Keflavík á hálftíma

Tapleikur Keflavíkur gegn Valsmönnum í Landsbankadeildinni í kvöld gæti reynst þeim dýrkeyptur. Ekki nóg með að þrjú stig hafi horfið af Keflavíkurvelli þá voru þrír leikmenn heimamanna bornir af velli með töluverða áverka. Valsmenn hirtu öll stigin á Keflavíkurvelli í kvöld en þeir komust í 0-2 eftir tæplega 12 mínútna leik en lokatölur leiksins voru 1-3 Valsmönnum í vil.

Þeir Ómar Jóhannsson, Guðmundur Steinarsson og Branislav Milicevic voru allir bornir meiddir af velli á fyrstu 20 mínútum leiksins og taldi Kristján Guðmundsson, þjálfari Keflavíkur, að enginn þeirra myndi leika með á fimmtudag þegar Keflavík mætir Fram á Laugardalsvelli.

Heimamenn voru sterkari aðilinn í upphafi leiks og átti Guðmundur Steinarsson ágætisfæri strax á fyrstu mínútu þegar hann fékk sendingu inn fyrir Valsvörnina. Kjartan Sturluson var þó vel á verði í Valsmarkinu og bægði hættunni frá.

Valsarar voru þó ekki lengi að koma sér í gang og á 9. mínútu brunaði Helgi Sigurðsson upp hægri kantinn og átti skot að marki sem var nokkuð laust. Boltinn barst inn í teig og í klafsi virtist boltinn fara af varnarmanni Keflavíkur og í netið og staðan því 0-1 Val í vil. Í varnartilburðunum virtist sem Ómar Jóhannsson og annar liðsfélagi hans skyllu saman með þeim afleiðingum að Ómar varð frá að víkja og Bjarki Guðmundsson fór í markið.

Ekki leið á löngu uns gestirnir bættu við öðru marki en þá var það Guðmundur Benediktsson sem skoraði með þrumuskoti upp í þaknetið eftir að boltinn barst til hans í teig Keflvíkinga eftir hornspyrnu Valsmanna. Aðeins 12 mínútur liðnar af leiknum, Valsmenn komnir í 2-0 og tveir leikmenn Keflavíkur farnir af velli með meiðsli, þeir Ómar og Guðmundur sem meiddist skömmu fyrir fyrsta mark Valsmanna.

Á 25. mínútu rak Baldur Bett svo smiðshöggið er hann kom Val í 3-0 með glæsilegu skoti fyrir utan markteig sem hafnaði í hægra horninu, óverjandi fyrir Bjarka í markinu. Yfirburðir Valsmanna voru algerir á þessum tímapunkti og allt stefndi í stórsigur gestanna. Skömmu eftir markið varð Branislav Milicevic frá að víkja er hann meiddist á ökkla og Guðmundur Viðar Mete kom inn í hans stað og Keflvíkingar því búnir með allar þrjár skiptingarnar sínar áður en flautað var til leikhlés.

Heimamenn náðu þó að minnka muninn á 35. mínútu þegar Símun Samuelsen fékk sendingu inn fyrir Valsvörnina. Hann lék fyrst á Kjartan í markinu og svo einn varnarmann Vals til viðbótar áður en hann skoraði og breytti stöðunni í 1-3. Þannig stóðu leikar í hálfleik en Keflvíkingar voru sterkari aðilinn það sem eftir lifði hálfleiksins eftir mark Símuns.

Baráttan var mikil á báða bóga í upphafi síðari hálfleiks og virtust Keflvíkingar til alls líklegir en þá vantaði sárlega meiri grimmd upp við mark gestanna. Mikill hiti var í leikmönnum og munaði oft og tíðum minnstu að upp úr syði. Væg handalögmál áttu sér stað en Garðar Örn Hinriksson, dómari leiksins, hafði litla sem enga stjórn á vaskri framgöngu beggja liða. Nokkuð ósamræmi var í dómum hans og sluppu leikmenn beggja liða með gróf brot en svo voru bæði lið að sjá gul spjöld fyrir væg brot.

Valsmenn stóðu af sér sóknir heimamanna út síðari hálfleikinn og lögðu ekki mikið upp úr því sjálfir að sækja heldur halda fengnum hlut. Keflvíkingar áttu síðari hálfleikinn að mestum hluta og voru óheppnir að minnka ekki muninn. Valsmenn höfðu því 1-3 sigur á Keflavíkurvelli og eru enn í 2. sæti Landsbankadeildarinnar með 28 stig en Keflvíkingar hafa 18 stig.

Keflavík hefur aðeins náð að landa einu stigi í Landsbankadeildinni síðan þeir töpuðu 2-1 gegn ÍA uppi á Akranesi fyrr í sumar og hafa ekki náð að fylgja eftir magnaðri byrjun sinni á deildinni. Þá þykir sennilegt að þeir Ómar, Guðmundur og Branislav verði ekki með á fimmtudag gegn Fram.

Staðan í deildinni

VF-mynd/Hilmar Bragi

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024