Valitor-bikarinn: Öll Suðurnesjaliðin eiga útileik
Nú í hádeginu var dregið í 8-liða úrslit Valitor-bikarsins og ljóst að Keflvíkingar fá útileik að þessu sinni gegn annað hvort KR eða FH sem eigast við á morgun.
Leikmenn Keflavíkur brugðust við fréttunum á Twitter samskiptavefnum og skrifaði Jóhann B. Guðmundsson „FH i bikarnum enn eitt árið. Vorum einmitt að tala um það í klefanum í gœr,“ og augljóst að Jóhann telur FH-inga fara áfram. „Helvítis...“ sagði Guðmundur Steinarsson liðsfélagi Jóhanns eftir þessi ummæli en síðastliðin tvö ár hafa Keflvíkingar mætt FH.
Grindvíkingar mæta Þórsurum fyrir norðan en skammt er síðan liðin áttust við í deildinni þar sem Grindvíkingar höfðu öruggan 4-1 sigur á heimavelli sínum. Stelpurnar í Grindavík eru sömuleiðis í 8-liða úrslitum en þær mæta KR á útivelli en Grindvíkingar unnu 5-0 sigur á Fjölni í 16-liða úrslitum.
Jón Þór Brandsson þjálfari kvennaliðs Grindavíkur býst við skemmtilegum leik gegn KR-ingum í bikarnum. „Þær eru með öflugt og skemmtilegt lið og það verður skemmtilegt að kljást við þær,“ segir Jón. „Við erum að sjálfsögðu með í bikarnum til þess að fara alla leið þannig að við erum kokhraust fyrir þennan leik,“ bætti hann við en þessi lið mætast einmitt á morgun á Grindavíkurvelli.