Vængbrotnir kvennameistarar Njarðvíkur steinlágu í Keflavík
Íslandsmeistarar Njarðvíkur í körfubolta kvenna fengu skell gegn nágrönnum sínum úr Keflavík í Lengjubikarnum og töpuðu með þrjátíu stiga mun. Keflavík skoraði 94 stig gegn 64 en staðan í hálfleik var 47-28 fyrir heimadömurnar.
Hvorugt liðið skartaði útlendingum og Njarðvík saknaði auk þess þriggja sterkra leikmanna frá síðasta tímabili en þær Harpa Hallgrímsdóttir, Ólöf Helga Pálsdóttir og Petrúnella Skúladóttir munu samkvæmt heimildum VF ætla leika með sínu gamla uppeldisfélagi, Grindavík í vetur. Það er ljóst að það er gríðarleg blóðtaka fyrir Njarðvík.
Hjá Keflavíkurliðinu skoraði aldursforsetinn Birna Valgarðsdóttir 20 stig og tók 9 fráköst, Pálína Gunnlaugsdóttir var með 17/7 og Sara Rún Hinriksdóttir 16/11. Hjá Njarðvík skoraði Salbjörg Sævarsdóttir 14 stig og tók 11 fráköst og Eyrún Líf Sigurðardóttir 11/4.