Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Útspark: Áramótaheit
Laugardagur 7. janúar 2012 kl. 15:22

Útspark: Áramótaheit


Þá er komið nýtt og betra ár og daglegt líf fer að komast í samt lag aftur eftir hátíðirnar. Allir búnir að éta yfir sig af kjöti, kalkún, ís og konfekti. Nú er tíminn sem flestir ætla að efna áramótaheitin sín um að fara í ræktina, taka mataræðið í gegn og ná af sér nokkrum kílóum. Maður er heppinn ef maður nær að hita upp á biluðu hjóli með einn pedala í ræktinni því að hlaupabrettin eru full af fólki sem ætlar að koma sér í toppform árið 2012.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Ég er samt ekki að kvarta, ég veit að ég verð kominn með öruggt hlaupabretti í síðasta lagi í byrjun febrúar. Flestir leggja af stað í átakið með góðum ásetningi en fæstir fylgja því eftir lengur en í nokkrar vikur. Það verða bara þeir sömu eftir og voru þar fyrir jól og fyrir páska og jólin þar á undan. Reyndar með einhverjum undantekningum því það eru alltaf nokkrir sem fara alla leið og taka sig virkilega á, en þeir eru yfirleitt færri en þeir sem leggja af stað í upphafi árs.

Svona átak er eins og fjallganga. Það er mjög ólíklegt að þú komist á toppinn ef þú byrjar á því að hlaupa upp hlíðina. Margir fara allt of geyst af stað í ræktinni og hreinlega sprengja sig. Það gæti verið gott að fara aðeins rólegar upp fyrsta hjallann og finna rétta taktinn.

Það getur hjálpað mikið að fá leiðsögn frá einhverjum sem þekkir góða leið upp fjallið. Það hafa ekki allir efni á flottum einkaþjálfara sem væri best en internetið er sniðugur hlutur og ekki erfitt að finna allskyns upplýsingar þar sem gætu hjálpað. Það eru ekki margir sem klífa fjöll einir, fyrir utan að það er miklu skemmtilegra í góðum félagsskap.

Þeir sem klífa fjöll hafa yfirleitt markmið, að komast á toppinn. Þeir sem setja sér markmið í ræktinni og stefna að einhverju aðeins meira áþreifanlegu en að komast í form (hringlótt er líka form segir góður vinur minn) eru mun líklegri til að ná árangri en hinir sem gera það ekki. Þeir ráfa bara um fjallshlíðina og borða nestið sitt á góðum stað.

Vonandi verð ég ennþá hitandi upp á bilaða hjólinu um páskana. Það þýðir að ég ásamt nokkrum öðrum höfum enst í átakinu okkar. Öllum líður betur í hraustum líkama. Kannski verður svo hjólið lagað einhvern tímann og þá verða allir ánægðir. Annars er hægt að reyna aftur í janúar 2013 ef það gengur ekki.

Gleðilegt ár!

Ómar Jóhannsson.