Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Útisigur hjá ÍR í framlengdum leik í Röstinni
Fimmtudagur 28. febrúar 2008 kl. 22:12

Útisigur hjá ÍR í framlengdum leik í Röstinni

ÍR gerði góða för til Grindavíkur í Iceland Express deild karla í körfuknattleik í kvöld er þeir höfðu 105-107 spennusigur gegn Grindvíkingum. Heimamenn fengu fjölmörg tækifæri til þess að hrifsa leikinn til sín en piltarnir úr Breiðholti neituðu að gefast upp og unnu mikilvægan sigur með landsliðsmanninn Hreggvið Magnússson fjarri góðu gamni sökum meiðsla.

 

Nate Brown gerði 31 stig fyrir ÍR í kvöld en það var annar landsliðsmaður í herbúðum ÍR sem lét vel til sín taka á endasprettinum. Sveinbjörn Claessen fann fjölina á lokasprettinum og setti niður tvær mikilvægar þriggja stiga körfur sem reyndust Grindvíkingum um megn. Páll Axel Vilbergsson var sjóðheitur í Grindavíkurliðinu með 39 stig og var hann aðeins tveimur stigum frá því að jafna sitt persónulega stigamet í úrvalsdeild sem er 41 stig í leik. Hann var ekki kátur með niðurstöðuna í Röstinni.

 

,,Þetta erum við í hnotskurn, við getum verið besta liðið á landinu og einnig það lélegasta. Við erum betri en mörg lið sem við leikum á móti, með fullri virðingu fyrir andstæðingum okkar, en við eigum það til að fara á þeirra leikplan. Þannig virðist þetta vera hjá okkur,” sagði Páll í samtali við Víkurfréttir og taldi að nú væri deildarmeistaratitillinn genginn Grindavík úr greipum. ,,Ég held að við höfum misst af tækifærinu hér í kvöld. Keflavík þarf að misstíga sig í tveimur leikjum en gera það örugglega ekki. Okkar helsta áhyggjuefni er að koma liðinu á rétta braut og ná alvöru dampi í okkar leik fyrir úrslitakeppnina svo við gerum okkur ekki að fíflum,” sagði Páll Axel Vilbergsson fyrirliði Grindavíkur í leikslok.

 

Minna fór fyrir varnarleiknum í kvöld hjá liðunum en menn hefðu kannski búist við svo skömmu fyrir úrslitakeppnina en í staðinn fengu áhorfendur stigaleik sem þó var nokkuð lágstemmdur. Liðunum tókst aldrei að stinga hvert annað af en Grindvíkingar virtust þó oft og tíðum líklegir til þess að hrista ÍR af sér en það gerðist ekki.

 

Staðan var 52-48 fyrir heimamenn í leikhléi sem í fyrri hálfleik náðu að klekkja aðeins á ÍR með svæðisvörn sem gaf vel en svo sást þessi sama svæðisvörn lítið sem ekkert í síðari hálfleik og vakti það nokkra furðu.

 

Ólafur J. Sigurðsson var líflegur hjá ÍR og átti flott kvöld á báðum endum vallarins. Hann gerði bakvörðum Grindavíkur erfitt fyrir í sókninni og var að hitta vel úr sínum skotum sem hann valdi af kostgæfni.

 

Igor Beljanski kom í fyrsta sinn inn á leikvöllinn í upphafi síðari hálfleiks og saman fundu þeir Páll Kristinsson taktinn í þriðja leikhluta og gerðu ÍR skráveifu í teignum. Staðan var 75-71 fyrir heimamenn þegar liðin héldu inn í fjórða leikhluta.

 

Páll Axel gaf vísbendingu í formi tveggja þrista í röð um að nú ætlaði Grindavík að stinga af í fjórða leikhluta en þegar Jón Arnar Ingvarsson tók leikhlé fyrir ÍR sagði hann sínum mönnum að halda ró sinni því þeir myndu vinna leikinn með þolinmæðina að vopni. Það gekk eftir!

 

Nate Brown kom leiknum í framlengingu með jöfnunarkörfu fyrir ÍR þegar 2,4 sekúndur voru til leiksloka en Adama Darboe átti lokaskotið í venjulegum leiktíma sem var ekki fjarri því að rata rétta leið en blása varð til framlengingar þar sem hið fornkveðna sannaðist. Þeir sem skora fyrst í framlengingunni vinna leikinn!

 

Thairou Sani gerði fyrstu stig framlengingarinnar fyrir ÍR og liðin skiptust á körfum uns Grindvíkingar gleymdu sér tvívegis í vörninni þar sem Sveinbjörn Claessen reyndist refsivöndur kvöldsins. Hann kom ÍR fyrst í 103-104 með þrist úr horninu og svo kom hann Breiðhyltingum aftur yfir 105-107 með öðrum þrist úr hægra horninu þegar 35 sekúndur voru til leiksloka. Þessi þriggja stiga karfa hjá Sveinbirni reyndist síðasta karfa leiksins því Grindavík náði ekki að jafna metin. Jonathan Griffin átti lokaskotið fyrir Grindavík sem var þriggja stiga skot og það geigaði og ÍR fagnaði innilega mikilvægum útisigri sínum í Röstinni.

 

Nate Brown og Sani gerðu samtals 55 stig í liði ÍR. Brown gerði 31 stig, tók 7 fráköst og gaf 7 stoðsendingar en þeir Sveinbjörn Claessen og Ólafur Sigurðsson léku einnig vel fyrir ÍR.

 

Páll Axel setti niður 39 stig hjá Grindavík og tók 6 fráköst en Jonathan Griffin gerði 26 stig og tók 12 fráköst.

 

Grindavík er enn í 2. sæti deildarinnar með 28 stig en ÍR hefur nú 18 stig í 7. sæti deildarinnar og á enn fræðilegan möguleika á því að ná alla leið upp í 4. sæti.

 

Tölfræði leiksins

 

[email protected]

 

 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024